Mesta niðursveiflan hjá ferðaskrifstofum Arion

Það var þónokkur samdráttur hjá dönskum ferðaskrifstofum í fyrra. Í farþegum talið var hann mestur hjá Bravo tours sem er ein af þeim ferðaskrifstofum sem Arion banki tók yfir síðastliðið sumar.

Frá spænskri sólarströnd. Mynd: Ferðamálaráð Spánar

Fjöldi þeirra farþega sem fór út í heim á vegum stærstu ferðaskrifstofa Danmerkur dróst saman um fimm af hundraði í fyrra. Það jafngildir 61.600 farþegum samkvæmt frétt danska ferðaritsins Standby sem byggir á upplýsingum frá samtökum danskra ferðaskrifstofa. Að mati forkólfa samtakanna þá skrifast neikvæð þróun meðal annars á hitabylgjuna í Skandinavíu sumarið 2018 og rekstrarvanda Thomas Cook ferðaskipuleggjandans sem á átti eina stærstu ferðaskrifustofu Danmerkur. Því til viðbótar aukin umhverfisvitund Dana talin hafa dregið úr ferðagleðinni.

Sú danska ferðaskrifstofa sem missti flesta farþega í fyrra var Bravo Tours sem lengi var hluti af Primera Travel veldi Andra Más Ingólfssonar. Arion banki samsteypuna yfir síðastliðið sumar. Bravo Tours flutti um 148 þúsund farþega í fyrra eða rúmlega tuttugu þúsund færri en árið 2018. Samdrátturinn nemur um tólf af hundraði.

Þrátt fyrir fækkunina þá er þessi danska ferðaskrifstofa Arion banka ennþá sú fjórða umsvifamesta í Danmörku. Í fimmta sætinu er svo danskt útibú hollensku ferðaskrifstofunnar Sunweb. Sú hollenska var nýverið keypt af fjárfestingasjóðunum Triton sem er einmitt sami sjóður og nú mun skoða kaup á norrænu ferðaskrifstofunum sem Arion banki tók af Andra Má í sumar líkt og Túristi hefur áður greint frá.

Talsmaður Triton hefur þó ekki viljað tjá sig um stöðu þeirra mála við Túrista. Ekki liggur fyrir hvort Triton hyggst einnig kaupa Heimsferðir en forstjóri Úrval-Útsýn gagnrýndi nýverið að Arion banki væri á kafi í samkeppnisrekstri hér á landi í gegnum eignarhald sitt á Heimsferðum.