Miklar breyt­ingar á farþega­hópi Icelandair í fyrra

Vægi tengifarþega lækkaði verulega í fyrra hjá Icelandair í takt við breyttar áherslur í sölustarfi félagsins.

icelandair radir
Nú skipa ferðamenn á leið til Íslands orðið fleiri sæti en áður um borð í þotum Icelandair. Mynd: Icelandair

„Við erum vilj­andi, út af krefj­andi aðstæðum á Via-markaði, að stýra tekju­mynd­un­inni inni á To og From,” sagði Eva Sóley Guðbjörns­dóttir, fram­kvæmda­stjóri fjár­mála­sviðs Icelandair Group, á afkomufundi samsteyp­unnar í apríl í fyrra. Vísaði hún þar til þess að mark­að­urinn fyrir tengiflug (Via) væri erfiður.

Áherslan hjá Icelandair á nýliðnu ári var þar með á farþega á leið til Íslands (To) og sérstak­lega eftir fall WOW air í lok mars. Þessi hópur stækkaði því hratt í fyrra eða um fjórðung frá árinu á undan og taldi samtals 1,9 milljón farþega samkvæmt tilkynn­ingu frá Icelandair.

Erlendir ferða­menn eru bróð­urpartur þeirra farþega sem flokkaði eru sem „To-farþegar” hjá Icelandair en til hópsins teljast líka Íslend­ingar búsettir í útlöndum. Svokall­aðir „From-farþegar” eru svo þeir sem hefja ferða­lagið á Íslandi og eru því í lang­flestum tilfellum búsettir hér á landi, bæði Íslend­ingar og útlend­ingar.

Vegna fyrr­nefndrar áherslu­breyt­ingar í sölu­starfi Icelandair þá hefur tengifar­þegum félagsins fækkað og á síðasta ári fór hlut­fallið niður í það sem það var árið 2012 eins og sjá má á grafinu hér fyrir neðan.

Á þessu ári verður áherslan sú sama og í fyrra samkvæmt því sem haft er eftir Boga Nils Boga­syni, forstjóra Icelandair Group, í tilkynn­ingu. „Áætlanir okkar hafa því gengið upp og við munum halda áfram á sömu braut á árinu 2020 með uppstill­ingu leiða­kerf­isins og áherslum í sölu- og mark­aðs­starfi okkar. Við gerum ráð fyrir 25–30 prósent aukn­ingu á farþegum til landsins á fyrsta ársfjórð­ungi þessa árs. Sveigj­an­leiki í leiða­kerfi félagsins gerir okkur kleift að bregðast hratt við breyt­ingum í umhverfinu og mæta eftir­spurn.“