Millilandaflugið á uppleið fyrir norðan

Þeir fjölgar stöðugt sem fljúga beint frá Akureyri til útlanda.

Þota Transavia á Akureyrarflugvelli. Mynd: Markaðsstofa Norðurlands

Það voru 38 prósent fleiri millilandafarþegar sem fóru um flugvöllinn á Akureyri í fyrra í samanburði við árið á undan. Vöxturinn þá var reyndar ennþá meiri eða 70 prósent og árið 2017 nam hann fjórðungi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Markaðsstofu Norðurlands.

Þar kemur fram að nú styttist í að ferðamenn á vegum hollensku ferðaskrifstofunnar Voigt Travel komi í fyrstu vetrarferð ársins til Norðurlands. Að þessu sinni verða ferðirnar átta talsins og von er á fyrsta hópnum þann 14. febrúar og sá síðasti flýgur af landi brott 9. mars. Sem fyrr er það flugfélagið Transavia sem annast flugið.

„Fjölgun í heimsóknum erlendra ferðamanna yfir vetrartímann er kærkomin innspýting fyrir ferðaþjónustuna á svæðinu. Þá er þessi stöðugi og mikli vöxtur merki um þann árangur sem hefur náðst í markaðssetningu áfangastaðarins Norðurlands og undirstrikar mikilvægi þess að ráðist verði í uppbyggingu á Akureyrarflugvelli til framtíðar,“ segir í tilkynningu.

Það eru ekki öll sætin seld í flug Transavia til Rotterdam og geta íbúar Norðurlands keypt sér miða hjá Ferðaskrifstofu Akureyrar.