Möguleg uppgrip í flughermi Icelandair

Það eru aðeins starfræktir 34 Boeing MAX flughermar í heiminum í dag. Nú vilja stjórnendur flugvélaframleiðandans að allir flugmenn fari í flughermi á ný áður en þeir fari í loftið með þoturnar umtöluðu.

MAX flughermir Icelandair í Hafnarfirði. Mynd: Icelandair

Það var um miðjan mars í fyrra sem allar þotur af gerðinni Boeing MAX voru kyrrsettar um heim allan í kjölfar tveggja flugslysa þar sem 346 manns misstu lífið. Þessi mannskæðu slys hafa verið rakin til sérstaks hugbúnaðar í þotunum og ennþá hafa lagfæringar á honum ekki verið samþykktar af flugmálayfirvöldum.

Á meðan á kyrrsetningunni hefur varað hafa stjórnendur Boeing þó fullyrt að flugmenn ættu ekki að þurfa að gangast undir sérstaka þjálfun í flughermi á ný vegna komandi breytinga á stýrikerfi þotanna.

Nú er hins vegar komið annað hljóð í skrokkinn og nú mælist Boeing til þess að allir flugmenn, sem fljúga eiga MAX flugvélum, fari í þjálfun í flughermi áður en farið er í loftið á ný. Þetta kom fram í máli Greg Smith, starfandi forstjóra Boeing, á þriðjudag.

Með þessari breytingu eykst kostnaðurinn við að koma þotunum í rekstur á ný og jafnvel gæti biðin lengst. Á það er nefnilega bent í frétt New York Times að í dag eru aðeins til þrjátíu og fjórir flughermar sem hannaðir eru sérstaklega fyrir MAX flugvélar. Reyndar er ekki útilokað að hermar fyrir eldri gerðina af 737 þotunum dugi en það er þó ekki fullvíst. Um tvö hundruð þess háttar eru til í dag.

Ef þessir eldri hermar duga ekki þá mun stefna í töluverða bið eftir plássum í þessa þrjátíu og fjóra MAX herma en einn þeirra er einmitt í eigu Icelandair og staðsettur í Hafnarfirði.

Sá var tekinn í notkun í hittifyrra og nú gætu orðið uppgrip þar á bæ við að þjálfa MAX flugmenn á nýjan leik og þá ekki bara þá sem starfa hjá Icelandair heldur líka erlend flugfélög.

NÚ GETUR ÞÚ STUTT VIÐ ÚTGÁFU TÚRISTA