Möguleg uppgrip í flug­hermi Icelandair

Það eru aðeins starfræktir 34 Boeing MAX flughermar í heiminum í dag. Nú vilja stjórnendur flugvélaframleiðandans að allir flugmenn fari í flughermi á ný áður en þeir fari í loftið með þoturnar umtöluðu.

MAX flughermir Icelandair í Hafnarfirði. Mynd: Icelandair

Það var um miðjan mars í fyrra sem allar þotur af gerð­inni Boeing MAX voru kyrr­settar um heim allan í kjölfar tveggja flug­slysa þar sem 346 manns misstu lífið. Þessi mann­skæðu slys hafa verið rakin til sérstaks hugbún­aðar í þotunum og ennþá hafa lagfær­ingar á honum ekki verið samþykktar af flug­mála­yf­ir­völdum.

Á meðan á kyrr­setn­ing­unni hefur varað hafa stjórn­endur Boeing þó fullyrt að flug­menn ættu ekki að þurfa að gangast undir sérstaka þjálfun í flug­hermi á ný vegna komandi breyt­inga á stýri­kerfi þotanna.

Nú er hins vegar komið annað hljóð í skrokkinn og nú mælist Boeing til þess að allir flug­menn, sem fljúga eiga MAX flug­vélum, fari í þjálfun í flug­hermi áður en farið er í loftið á ný. Þetta kom fram í máli Greg Smith, starf­andi forstjóra Boeing, á þriðjudag.

Með þessari breyt­ingu eykst kostn­að­urinn við að koma þotunum í rekstur á ný og jafnvel gæti biðin lengst. Á það er nefni­lega bent í frétt New York Times að í dag eru aðeins til þrjátíu og fjórir flug­hermar sem hann­aðir eru sérstak­lega fyrir MAX flug­vélar. Reyndar er ekki útilokað að hermar fyrir eldri gerðina af 737 þotunum dugi en það er þó ekki full­víst. Um tvö hundruð þess háttar eru til í dag.

Ef þessir eldri hermar duga ekki þá mun stefna í tölu­verða bið eftir plássum í þessa þrjátíu og fjóra MAX herma en einn þeirra er einmitt í eigu Icelandair og stað­settur í Hafnar­firði.

Sá var tekinn í notkun í hittifyrra og nú gætu orðið uppgrip þar á bæ við að þjálfa MAX flug­menn á nýjan leik og þá ekki bara þá sem starfa hjá Icelandair heldur líka erlend flug­félög.

NÚ GETUR ÞÚ STUTT VIÐ ÚTGÁFU TÚRISTA