Óskar eftir fundi í samgöngu­nefnd Alþingis vegna Boeing

Þingflokksformaður Viðreisar kallar eftir því að fulltrúar Isavia, Samgöngustofu og Icelandair mæti á fund umhverfis- og samgöngunefndar við fyrsta tækifæri til umræðu um stöðu Boeing MAX þota Icelandair.

MAX þota Icelandair á flugbraut við Tegel flugvöllinn í Berlín. Mynd: Berlín Tegel

Hanna Katrín Frið­riksson, þing­flokks­formaður Viðreisnar, hefur óskað eftir því að umhverfis- og samgöngu­nefnd Alþingis taki mál sem varða endur­komu MAX flug­véla Boeing til umfjöll­unar. Hanna Katrín á sæti í nefnd­inni.

Í færslu á Face­book vísar Hanna Katrín til þess að síðustu daga hafi fjöl­miðlar víða um heim opin­berað samskipti milli hátt­settra starfs­manna Boeing þar sem fram kemur áhersla þeirra á að flug­menn MAX þotanna eigi ekki að þurfa sérstaka þjálfun ef þeir hafa rétt­indi á eldri gerðir af Boeing 737. Flug­véla­fram­leið­andinn lét reyndar af þeirri stefnu nú í vikunni þegar forstjóri fyrir­tæk­isins tilkynnti að skil­yrði verði sett um að allir flug­menn fái þjálfun i flug­hermi.

Icelandair hafði tekið sex þotur af gerð­inni Boeing MAX 737 í notkun en áður þoturnar voru kyrr­settar um miðjan mars í fyrra. Auk þess voru þrjár í viðbót tilbúnar til afhend­ingar en þær bíða enn við verk­smiðjur Boeing í Seattle.

Í færslu sinni á Face­book segir Hanna Katrín að hún óski eftir því að Isavia, Samgöngu­stofa og Icelandair mæti á fund umhverfis- og samgöngu­nefndar Alþingis við fyrsta tæki­færi og veiti upplýs­ingar um hvernig þessir aðilar fylgjast með ferlinu í tengslum við afnám kyrr­setn­ingar MAX þotanna.