Raunhæft að auka þau verðmæti sem hver ferðamaður skilur eftir sig í landinu

Eyðsla hvers ferðamanns á degi hverjum var meiri á síðasta ári árin þar á undan. Inn á þetta og margt fleira kom aðalhagfræðingur Samtaka atvinnulífsins á ráðstefnu Icelandair í gær.

Mynd: Andrik Langfield / Unsplash

Ásdís Kristjánsdóttir, aðalhagfræðingur SA, var meðal þeirra sem hélt erindi á ráðstefnu Icelandair um stöðu og mikilvægi flugrekstrar og ferðaþjónustu hér landi. Þar benti hún meðal annars á að hver ferðamenn hér á landi eyði meiru og dvelja lengur en þeir sem hingað komu árin 2017 og 2018. Aftur á móti var eyðslan ennþá meiri á árum áður og dvalartíminn þá lengri en í dag.

Aðspurð um skýringar á þessari niðursveiflu á árunum 2017-2018 þá segir Ásdís, í svari til Túrista, að styrking krónunnar hafi örugglega haft áhrif á þessa dýfu sem varð á neysluhegðun ferðamanna. „Þá breyttist samsetning ferðamanna einnig með tilkomu WOW Air. Með lággjaldaflugfélögum fljúga sparsamari ferðamenn, sem stoppa styttra og eyða minna. Það er nú að breytast og við sjáum það í tölunum fyrir árið 2019.” 

Ásdís bendir jafnframt á að eyðsla hvers ferðamanns á hverjum degi var meiri á síðasta ári en öll hin árin. „Ferðamaðurinn er því nú að eyða meira á hverjum degi en áður. Verkefnið framundan er hins vegar að ferðamenn eyði enn meiru og dvelji hér lengur. Ég tel að það sé raunhæft að sækja enn frekar fram og auka þau verðmæti sem hver ferðamaður skilur eftir sig í landinu. Nýja-Sjáland treysti eins og við mikið á ferðaþjónustuna en neysla á hvern ferðamann er mun meiri þar í landi en hjá okkur sem dæmi. Við þurfum að horfa til þessara ríkja, hvað eru þau að gera sem við erum ekki að gera? Auðvitað skiptir rekstrarumhverfið máli, hlutverk stjórnvalda er að tryggja sterka innviði og samkeppnishæft umhverfi með hóflegri skattheimtu og gjaldtöku. Fyrirtæki í ferðaþjónustunni þurfa að skapa tækifæri, fjárfesta í nýsköpun og auka framleiðni og verðmætasköpun í greininni.”

Sem fyrr segir var dvalartími ferðamanna lengstum lengri á síðasta áratug en þá voru árstíðarsveflur líka meiri. Óttast þú ekki að ef dvalartíminn lengist að um leið aukist árstíðarsveiflur í ferðaþjónustu? „Lykilatriði er að hámarka arðsemi í ferðaþjónustunni. Lengja dvalartímann og minnka árstíðarsveiflur til að við getum nýtt betur innviði eins og gistirými utan háannar. Það þarf að finna gott jafnvægi hér, tryggja að dvalatíminn aukist ekki aðeins á sumrin heldur einnig yfir vetrartímann,” svarar Ásdís.

Í erindi þínu nefndir þú að skattheimta og laun væru meðal helstu áskorana sem ferðaþjónustan stendur frammi fyrir. Launin breytast varla en hvaða leiðir eru til að slá af skattheimtu og hvaða áhrif hefði það þá á fjármagn til að ráðast í tímabærar endurbætur á vegakerfi? „Ég tel að það ætti að vera forgansverkefni stjórnvalda að lækka tryggingagjaldið hraðar og meira. Tryggingagjaldið leggst á launagreiðslur, er verulega íþyngjandi fyrir mörg fyrirtæki einkum ferðaþjónustuna sem er vinnuaflsfrek grein með hátt launahlutfall. Lækkun tryggingagjaldsins myndi þannig sporna gegn frekari fækkun starfa.” 

Ásdís bendir jafnramt á að forgangsröðun stjórnvalda síðustu ár hefur verið að greiða niður skuldir og nú sé skuldahlutfall ríkissjóðs undir þeirra eigin skuldaviðmiði. „Að mínu mati eru talsverð tækifærin fólgin í því að ráðast í arðbærar innviðafjárfestingar á tímum efnahagslægðar með frekari skuldsetningu nú. Stjórnvöld geta nýtt sér að vextir erlendis eru í sögulegum lágmarki, dregið hingað inn erlent fjármagn til uppbygginga á arðbærum innviðaframkvæmdum eins og endurbætur á vegakerfinu. Frekari innviðafjárfesting er nauðsynleg ekki aðeins fyrir ferðaþjónustuna heldur fyrir atvinnulífið allt og styrkir stoðir hagvaxtar til framtíðar.”

Eins og þú komst inn á er töluverður verðmunur á þriggja rétta máltið á íslensku veitingahúsi  og svo dönsku. Hver er megin skýringin á því og hver eru áhrif krónu og hárra vaxta? „Launahlutfallið er mjög hátt í rekstri veitingahúsa, launakostnaður sem hlutfall af rekstrartekjum hátt í 40 prósent sem hefur auðvitað bein áhrif á verðlagið. Laun á Íslandi eru hærri hér en í Danmörku. Þá bætist annars konar kostnaður við eins og opinberar álögur, áfengisgjaldið og tryggingagjaldið sem dæmi. Gengi krónunnar hefur einnig áhrif, þó raungengið hafi gefið lítillega eftir síðustu misseri þá er það enn hátt í sögulegum samanburði. Allir þessir þættir hafa áhrif á verðlagninguna.”

Flugsamgöngur eru sérstaklega þýðingamiklar fyrir ferðaþjónustu á eyju eins og þú nefndir í erindi þínu. Væri það árangursríkt að þínu viti að draga úr tekjum Isavia með því að lækka verðskrár Keflavíkurflugvallar, bæði gagnvart flugfélögum og öðrum ferðaþjónustufyrirtækjum? „Það er sanngjarnt og eðlilegt að verðskrá endurspegli kostnaðinn sem hlýst af því að veita þjónustuna. Ef ekki þá eru skattgreiðendur farnir að niðurgreiða þjónustuna. Það má þó gjarnan finna leiðir til að auka hagkvæmni í rekstri flugstöðvarinnar til að hægt sé að lækka verðskránna. Þar gæti einkaframtakið komið að notum. Einkarekstur flugstöðvarinnar hefur verið nefndur, eins og tíðkast víða í Evrópu. Það mætti t.d. sjá fyrir sér að flugstöðin væri rekin af fyrirtæki sem væri í meirihlutaeigu erlends fyrirtækis sem hefur víðtæka reynslu af flugstöðvarekstri og í minnihlutaeigu íslenskra fjárfesta sem hafa áhuga á langtímafjárfestingum í innviðum, eins og lífeyrissjóðir.”

NÚ GETUR ÞÚ STUTT VIÐ ÚTGÁFU TÚRISTA