Reikna með að fljúga áfram til Kanarí og Tenerife

Nú í vetur hafa þotur Norwegian flogið héðan til nánast daglega til Tenerife og Las Palmas. Ekkert verður framhald á í sumar en þráðurinn verður líklega tekinn upp næsta vetur.

Mynd: Norwegian

Bæði WOW air og Primera Air voru stórtæk í flugi héðan til bæði Tenerife og Las Palmas en eftir að bæði félögin urðu gjaldþrota fyllti Norwegian skarð þeirra að töluverðu leyti. Í vetur hefur þetta norska lággjaldafélag þannig boðið upp á fjórar til fimm brottfarir til Tenerife í viku hverri og tvær til Las Palmas á Kanarí. Við þetta bætist svo leiguflug Icelandair fyrir ferðaskrifstofur.

Framboð á Spánarflugi frá Keflavíkurflugvelli hefur því verið mjög mikið í vetur en það dregur töluvert úr nú í lok mars þegar sumarááætlun flugfélaganna hefst. Áætlunarflug til Íslands frá Tenerife og Las Palmas er nefnilega ekki hluti af sumarprógrammi Norwegian. Og ennþá hefur félagið ekki hafið sölu á ferðum næsta vetrar.

Það eru þó allar líkur á að þráðurinn verði tekinn upp á ný næsta vetur samkvæmt svari frá Norwegian við fyrirspurn Túrista. Þar er bent á að áætlun flugfélagsins fyrir næsta vetrar liggi ekki fyrir en eins og staðan er núna þá verði þessar flugleiðir hluti af henni.

Hvort Norwegian mun bjóða upp á jafn tíðar ferðir suður á bóginn næsta vetur á eftir að koma í ljós. Það sama má segja um áætlun Icelandair en félagið ætlaði sér stóra hluti í sólarlandaflugi en vegna kyrrsetningar MAX þotanna voru þau áform sett á ís.

NÚ GETUR ÞÚ STUTT ÚTGÁFU TÚRISTA