Samgöngustofa fylgist með stöðu MAX

Það er á hendi Samgöngustofu að ganga úr skugga um að þjálfun flugmanna fari fram samkvæmt settum reglum Evrópusambandsins. Stofnunin er þó ekki með sérstakt eftirlit með þjálfun erlendra flugfélaga sem kunna að hafa viðkomu á Íslandi.

Hluti af MAX þotum Icelandair sem kyrrsettar hafa verið síðan um miðjan mars í fyrra. Mynd: Gunnlaugur Rögnvaldsson

Auk Icelandair þá hafa flugfélögin Air Canada og Norwegian nýtt Boeing MAX þotur í flug til og frá Keflavíkurflugvelli. Allar flugvélar af þessari tegund hafa nú verið kyrrsettar frá því um miðjan mars í fyrra og ekki er vitað hvenæ þær fara í loftið á ný. Icelandair gerir ráð fyrir þeim í loftið í maí.

Innanhús samskipti milli sérfræðinga Boeing flugvélaframleiðandans, sem birt voru í fyrradag, gefa til kynna að eftirlitsstofnanir hafi ekki ekki í öllum tilvikum fengið viðunandi upplýsingar um MAX þoturnar. Samkvæmt svari frá Samgöngustofu, við fyrirspurn Túrista, þá er fylgst með framvindu mála varðandi Boeing 737 MAX innan stofnunarinnar. Einkum með tilliti til afstöðu Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins (EASA) en umrædd stofnun ber ábyrgð á vottun loftfara sem eru skráð í ESB og EES ríkjum og gefur út fyrirmæli hvað það varðar.

„Ráðstafanir Samgöngustofa felast þannig í nánu samráði við EASA. EASA fylgir málinu eftir þannig að þessi tegund flugvéla verður ekki tekin aftur í notkun fyrr en ítarlegu tæknilegu mati og viðeigandi ráðstöfunum er lokið auk þess sem kröfur varðandi þjálfun og endurþjálfun flugmanna verða skoðaðar sérstaklega og þjálfun lokið samkvæmt því,“ segir í svari stofnunarinnar.

Stjórnendur og sérfræðingar Boeing lögðu mikla áherslu á að ekki yrðu gerðar kröfur um að flugmenn, með reynslu af eldri gerðum af Boeing 737 þotum, þyrftu að fara í gegnum sérstaka þjálfun áður en þeir færu í loftið á MAX þotunum. Settur forstjóri Boeing gaf það his vegar út í vikunni að nú yrðu allir flugmenn að gangast undir þjálfun í flughermi áður en þeir fá leyfi til að fljúga MAX þotunum.

Það er Samgöngustofa sem fylgir því eftir að þjálfun flugmanna, hjá evrópskum flugrekendum, fari fram skv. ESB reglum sem innleiddar hafa verið hér á landi. „Allir flugmenn sem hafa í dag tegundaráritun á Boegin 737 MAX og þeir sem fara í nýþjálfun munu þurfa að uppfylla kröfur varðandi þjálfun og fylgist Samgöngustofa með að því verði framfylgt,“ segir í svari stofnunarinnar

Sem fyrr segir er það ekki aðeins Icelandair sem nýtt hefur MAX þoturnar í Íslandsflug. Samgöngustofa framkvæmir þó ekki úttektir né sérstakt eftirlit með þjálfun erlendra flugfélaga sem kunna að hafa viðkomu á Íslandi því það er á ábyrgð viðkomandi flugmálayfirvalda þar sem flugfélögin eru skráð samkvæmt Samgöngustofu. „Fullyrða má að öll flugmálayfirvöld þar sem Boeing 737 MAX er á skrá fylgjast ítarlega með þróun mála og verður séð til þess að endurskoðaðar kröfur um starfrækslu Boeing 737 MAX verði uppfylltar,“ segir að lokum í svari Samgöngustofu við fyrirspurn Túrista.

NÚ GETUR ÞÚ STUTT ÚTGÁFU TÚRISTA