Segir óþarfa að ýkja framlag ferða­þjón­ust­unnar

Alþjóðasamtök flugfélaga birtu í gær skýrslu um íslenskan flugrekstur og ferðaþjónstu. Hagfræðisprófessorinn Þórólfur Matthíasson segir ýmislegt við aðferðafræði skýrsluhöfunda að athuga.

Mynd: Iceland.is

Icelandair og IATA, alþjóða samtök flug­fé­laga, efndu til opins fundar í gær það sem meðal annars var kynnt ný skýrsla samtak­anna um mikil­vægi flugrekstrar og ferða­þjón­ustu fyrir þjóð­ar­búið. Í skýrsl­unni segir að samtals standi þessar greinar undir 72 þúsund störfum og vægi grein­anna í vergri lands­fram­leiðslu sé 38,3 prósent. Þessar tölur standast þó enga skoðun að mati Þórólfs Matth­ías­sonar, hagfræði­pró­fessors við Háskóla Íslands.

„Samkvæmt Hagstof­unni sveiflast starfs­manna­fjöldinn milli 25 og 30 þúsund yfir árið 2019. Fór líti­lega hærra á árinu 2018 í einstökum mánuðum, t.d. júní, júlí, ágúst og sept­ember. Tölur IATA eru því tvöfalt til þrefalt hærri en raun­veru­leikinn segir til um hvað fjölda laun­þega áhrærir,” segir Þórólfur í samtali við Túrista. Hann bendir jafn­framt á að framlag ferða­þjón­ust­unnar til vergrar lands­fram­leiðslu sé rétt um 8 prósent en ekki 34,6 prósent eins og haldið er fram í skýrslu IATA.

Þórólfur segir að svo virðist sem útreikn­ing­arnir í skýrslu IATA byggi ekki á viður­kenndum aðferðum. „Aðferða­fræði þeirra, að telja framlag grunn­skóla- og leik­skóla­kennara sem kenna börnum flug­um­ferð­ar­stjóra, flug­stjóra og herberg­is­þerna til ferða­þjón­ustu er varhuga­verð. Benda má á að ef aðferða­fræði IATA væri beitt á sjáv­ar­útveg, álfram­leiðslu, sjóflutn­inga, opin­bera þjón­ustu o.s.frv. fengist út heild­artala fyrir afleidd störf sem störfuðu í öllum þessum atvinnu­greinum sem er langt umfram raun­veru­legan fjölda starfa á Íslenskum vinnu­markaði,” segir Þórólfur og bætir því við að framlag ferða­þjón­ustu til lands­fram­leiðslu á Íslandi er veru­legt. „Það er engin þörf á að ýkja neitt í þeim efnum.”

Nýjustu gögnin í skýrslu IATA byggja á tölum frá árinu 2018 en eins og ekki hefur farið framhjá nokkrum manni  þá breyttist margt í flugi og ferða­þjón­ustu við fall WOW air í mars í fyrra. Kyrr­setning MAX þotanna hefur líka haft sín áhrif og í fyrra fækkaði farþegum á Kefla­vík­ur­flug­velli um fjórðung og ferða­mönnum fækkaði um fjórtán af hundraði.

Ekki er að finna neitt um þetta gjör­breytta landslag í skýrslu IATA og þar með ekki gerð tilraun til að leggja mat á hvert vægi flugreksturs og ferða­þjón­ustu er í dag. Því má líka halda til haga að ítrekað hefur það komið fram í máli forsvars­fólks Icelandair að fram­boðið og fargjöldin á árunum þegar vöxtur WOW var mestur hafi verið ósjálfbær.

Áhrifin af falli WOW og breyt­inga á leiða­kerfi Icelandair koma líka skýrt fram í því hversu áfanga­stöð­unum, sem flogið er til frá Kefla­vík­ur­flug­velli, hefur fækkað mikið frá þeim tíma sem IATA horfir til. Skýrslu­höf­undar samtak­anna segja til að mynda að flug­leið­irnar frá Íslandi til Banda­ríkj­anna séu tuttugu og fjórar, fimmtán til Bret­lands og tíu til Þýska­lands. Þetta er fjarri því að vera lýsandi fyrir stöðuna í fyrra eða í ár því nú er flogið til helm­ingi færri áfanga­staða í Banda­ríkj­unum, Þýskalandi og Bretlandi.

Ásdís Kristjáns­dóttir, aðal­hag­fræð­ingur Samtaka atvinnu­lífsins, hélt einnig erindi á fundi Icelandair og IATA í gær. Umfjöllun um hennar framlag birtist hér á Túrista í dag og eins viðbrögð frá IATA við gagn­rýn­inni hér að ofan.