Segir óþarfa að ýkja framlag ferðaþjónustunnar

Alþjóðasamtök flugfélaga birtu í gær skýrslu um íslenskan flugrekstur og ferðaþjónstu. Hagfræðisprófessorinn Þórólfur Matthíasson segir ýmislegt við aðferðafræði skýrsluhöfunda að athuga.

Mynd: Iceland.is

Icelandair og IATA, alþjóða samtök flugfélaga, efndu til opins fundar í gær það sem meðal annars var kynnt ný skýrsla samtakanna um mikilvægi flugrekstrar og ferðaþjónustu fyrir þjóðarbúið. Í skýrslunni segir að samtals standi þessar greinar undir 72 þúsund störfum og vægi greinanna í vergri landsframleiðslu sé 38,3 prósent. Þessar tölur standast þó enga skoðun að mati Þórólfs Matthíassonar, hagfræðiprófessors við Háskóla Íslands.

„Samkvæmt Hagstofunni sveiflast starfsmannafjöldinn milli 25 og 30 þúsund yfir árið 2019. Fór lítilega hærra á árinu 2018 í einstökum mánuðum, t.d. júní, júlí, ágúst og september. Tölur IATA eru því tvöfalt til þrefalt hærri en raunveruleikinn segir til um hvað fjölda launþega áhrærir,“ segir Þórólfur í samtali við Túrista. Hann bendir jafnframt á að framlag ferðaþjónustunnar til vergrar landsframleiðslu sé rétt um 8 prósent en ekki 34,6 prósent eins og haldið er fram í skýrslu IATA.

Þórólfur segir að svo virðist sem útreikningarnir í skýrslu IATA byggi ekki á viðurkenndum aðferðum. „Aðferðafræði þeirra, að telja framlag grunnskóla- og leikskólakennara sem kenna börnum flugumferðarstjóra, flugstjóra og herbergisþerna til ferðaþjónustu er varhugaverð. Benda má á að ef aðferðafræði IATA væri beitt á sjávarútveg, álframleiðslu, sjóflutninga, opinbera þjónustu o.s.frv. fengist út heildartala fyrir afleidd störf sem störfuðu í öllum þessum atvinnugreinum sem er langt umfram raunverulegan fjölda starfa á Íslenskum vinnumarkaði,“ segir Þórólfur og bætir því við að framlag ferðaþjónustu til landsframleiðslu á Íslandi er verulegt. „Það er engin þörf á að ýkja neitt í þeim efnum.“

Nýjustu gögnin í skýrslu IATA byggja á tölum frá árinu 2018 en eins og ekki hefur farið framhjá nokkrum manni  þá breyttist margt í flugi og ferðaþjónustu við fall WOW air í mars í fyrra. Kyrrsetning MAX þotanna hefur líka haft sín áhrif og í fyrra fækkaði farþegum á Keflavíkurflugvelli um fjórðung og ferðamönnum fækkaði um fjórtán af hundraði.

Ekki er að finna neitt um þetta gjörbreytta landslag í skýrslu IATA og þar með ekki gerð tilraun til að leggja mat á hvert vægi flugreksturs og ferðaþjónustu er í dag. Því má líka halda til haga að ítrekað hefur það komið fram í máli forsvarsfólks Icelandair að framboðið og fargjöldin á árunum þegar vöxtur WOW var mestur hafi verið ósjálfbær.

Áhrifin af falli WOW og breytinga á leiðakerfi Icelandair koma líka skýrt fram í því hversu áfangastöðunum, sem flogið er til frá Keflavíkurflugvelli, hefur fækkað mikið frá þeim tíma sem IATA horfir til. Skýrsluhöfundar samtakanna segja til að mynda að flugleiðirnar frá Íslandi til Bandaríkjanna séu tuttugu og fjórar, fimmtán til Bretlands og tíu til Þýskalands. Þetta er fjarri því að vera lýsandi fyrir stöðuna í fyrra eða í ár því nú er flogið til helmingi færri áfangastaða í Bandaríkjunum, Þýskalandi og Bretlandi.

Ásdís Kristjánsdóttir, aðalhagfræðingur Samtaka atvinnulífsins, hélt einnig erindi á fundi Icelandair og IATA í gær. Umfjöllun um hennar framlag birtist hér á Túrista í dag og eins viðbrögð frá IATA við gagnrýninni hér að ofan.