Síðasta ferðin til San Francisco

Seinnipartinn í dag er komið að síðustu brottför Icelandair til San Francisco. Þetta er í annað sinn á þessari öld sem félagið hættir flugi til borgarinnar.

Frá San Francisco. Mynd: Chris Lawton / Unsplash

Farþegum á Keflavíkurflugvelli hefur staðið til boða beint flug til bandarísku borginnar San Francisco sleitulaust frá því í júní 2016. Þá fór WOW air jómfrúarferð sína þangað en áður hafði Icelandair spreytt sig á flugi til borgarinnar yfir sumarmánuðina árin 2005 og 2006.

Icelandair tók svo upp þráðinn á ný í San Francisco í júní í hittifyrra en þá hóf félagið að fljúga til fjögurra borga sem WOW air hafði áður setið eitt að.

WOW heltist svo úr lestinni í nóvember í fyrra þegar félagið losaði sig við breiðþotur og setti í forgang flug til Los Angeles. Icelandair var þá eitt eftir í San Francisco og fjölgaði farþegum félagsins þar um nærri fimmtán prósent síðastliðið sumar. Þrátt fyrir það tilkynntu stjórnendur Icelandair í lok september sl. að nú yrði látið staðar numið.

Fyrstu níu mánuðina í ár hafa samtals 59 þúsund farþegar flogið með Icelandair til og frá San Franscisco. Til samanburðar nýttu 115 þúsund farþegar sé ferðir WOW air á sama tímabili í fyrra samkvæmt tölum frá flugmálayfirvöldum borgarinnar. Svona upplýsingar eru ekki opinberar hér á landi og hefur Túristi árangurslaust kært þann upplýsingaskort.

Hafa ber í huga að WOW flaug oftar til borgarinnar og nýtti nokkru stærri flugvélar en Icelandair gerir. Sætanýtingin var líka hærri hjá því fyrrnefnda. Seinni hluta árs 2018 var hún 82 prósent hjá WOW en 76 prósent hjá Icelandair.

Sú staðreynd að WOW air hætti flugi til borgarinnar nokkru fyrir gjaldþrotið er aftur á móti vísbending um flugið þangað hafi ekki skilað nægjanlegum tekjum. Og líklega hefur flugleiðin ekki heldur verið arðbær fyrir Icelandair og því komið að leiðarlokum í dag.

Það vekur athygli að stuttu eftir að Icelandair gaf út að fluginu til San Francisco yrði hætt nú í haust þá bætti Norwegian við ferðum þangað frá fjórum evrópskum borgum. Þær eru allar eru hluti af leiðakerfi Icelandair.

Skýringin á þeirri viðbót er sú að San Francisco og nágrenni mun vera sá hluti Bandaríkjanna þar sem Norwegian gengur best samkvæmt því sem fram kom í viðtali við talsmann flugfélagsins nýverið. Hin norrænu flugfélögin, Finnair og SAS, hafa einnig bætt við við ferðum til San Francisco að undanförnu.

ÞYKIR ÞÉR EITTHVAÐ GAGN Í TÚRISTA?