Stefnir í að MAX flug­herm­irinn verði nýttur allan sólar­hringinn

Icelandair er eina evrópska flugfélagið sem á sinn eigin MAX flughermi. Útlit er fyrir að sá verði í fullnýttur þegar kyrrsetningu þotanna verður aflétt því fleiri flugfélög vilja fá afnot af honum fyrir bæði flugmenn sína og flugvirkja.

Hjá TRU Flight Training Iceland, dótturfélagi Icelandair Group, er ekki aðeins hermir fyrir Boeing MAX þotur heldur líka Boeing 757 og 767. Mynd: TRU Flight Training Iceland

„Í dag eru fimm MAX flug­hermar í Evrópu og Icelandair er eina flug­fé­lagið í álfunni sem á sinn eiginn. Til viðbótar rekur Boeing sjálft fjóra MAX herma í Evrópu, í Bretlandi og Tyrklandi. Í Banda­ríkj­unum eru til um tíu slíkir,” segir Guðmundar Örn Gunn­arsson, fram­kvæmda­stjóri TRU Flight Training Iceland, sem rekur flug­herma Icelandair í Hafnar­firði. En líkt og Túristi greindi frá í dag er útlit fyrir að þeir tiltölu­lega fáu MAX hermar, sem starf­ræktir eru í dag, verði þétt­setnir á næstu miss­erum.

Megin skýr­ingin á því er sú að nú gerir Boeing kröfu um að allir þeir flug­menn sem fljúga eiga Boeing MAX þotum fari í sérstaka þjálfun í flug­hermi áður en þeir taka á loft á nýjan leik. Þessi stefnu­breyting var kynnt af forstjóra Boeing í fyrradag en áður höfðu stjórn­endur flug­véla­fram­leið­andans gefið út að tölvu­nám­skeið ætti að duga þegar kyrr­setn­ingu þotanna lýkur. Ekki liggur þó fyrir hvenær það verður.

Aðspurður segir Guðmundur Örn að í kjölfar yfir­lýs­ingar forstjóra Boeing hafi borist fyrir­spurnir frá flug­fé­lögum en áður hafi fleiri erlend félög sett sig í samband. „Sum þeirra hafa nú þegar gengið frá samn­ingum og þjálfun er að hefjast á næst­unni og þá aðal­lega hjá flug­virkjum sem vinna munu við MAX þoturnar. Þegar Boeing hefur uppfært hugbúnað MAX þotanna og flug­mála­yf­ir­völd samþykkt þær breyt­ingar þá má búast við að flug­herm­irinn verði í notkun allan sólar­hringinn fyrir flug­menn Icelandair og erlendra flug­fé­laga,” segir Guðmundur Örn. Hann bætir því við að Icelandair hafi tryggt sér þá tíma sem flug­menn félagsins þurfa á að halda.

Og eftir­spurnin eftir þjálfun flug­manna í MAX flug­hermum er greini­lega mikil því samkvæmt frétt Financial Times þá eiga banda­rísk flug­félög í vand­ræðum með að fá þá tíma sem þau þurfa.