Stuðlagil og Vök haft jákvæð áhrif fyrir austan

Nýting á hótelum á Austurlandi hefur aukist í ár. Sú mikla athygli sem Stuðlagil hefur fengið á samfélagsmiðlum hefur þar væntanlega mikið að segja og eins opnun baðstaðarins Vök.

Frá Stuðlagili. Mynd: HitIceland

Herbergjanýting á hótelum hefur stóraukist á Austurlandi á árinu. Alls nam nýtingin að meðaltali 47 prósentum borið saman við 40 prósent á sama tímabili í fyrra. „Þetta er langhæsta herbergjanýting sem mælst hefur á Austurlandi en áður hafði hún mælst næsthæst 40,4 prósent árið 2017,“ segir í Hagsjá Landsbankans.

Aðspurð um skýringar á þessari jákvæðu þróun þá segir María Hjálmarsdóttir hjá Austurbú að þær geti verið margvíslegar. „Undir lok árs 2018 hófum við samfélagsmiðlaherferð sem hefur skilað miklum árangri. Við höfum lagt mikið upp úr góðu efni, myndböndum og myndum,“ segir María.

Hún bætir því við að ekki sé hægt að horfa framhjá þeirri miklu athygli sem Stuðlagil hefur fengið og þá sértaklega á Instagram. „Allir helstu ferðaáhrifavaldar hafa heimsótt staðinn sem og stór fyrirtæki eins og Canon og Nikon. Einnig hefur stóra síðan Ladbible birt myndband frá staðnum sem horft hefur verið á 32 milljón sinnum og deilt yfir hundrað þúsund sinnum.“

María bendir jafnframt á jákvæð áhrif nýjungarinnar Vök við Egilsstaði og vinnu við mótun áfangastaðarins. „Þetta helst allt í hendur.“

NÚ GETUR ÞÚ STUTT VIÐ ÚTGÁFU TÚRISTA