Þriðja fjölmennasta árið á Keflavíkurflugvelli

Það fóru rúmlega 7,2 milljónir farþega um Flugstöð Leifs Eiríkssonar í fyrra. Það er fjórðungi minna en árið áður.

Á næsta ári er reikna með áframhaldandi fækkun farþega á Keflavíkurflugvelli. Mynd: Isavia

Árið 2018 náði farþegafjöldinn á Keflavíkurflugvelli 9,8 milljónum og hafði hann þá fjórfaldast frá því í byrjun síðasta áratugar. Á nýliðnu ári fækkaði farþegum hins vegar umtalsvert eða um nærri 2,6 milljónir og lokatala ársins því 7,2 milljónir farþega. Samdrátturinn nemur 26 prósentum á milli ára samkvæmt talningu Isavia. Þetta er einnig þónokkuð undir fjöldanum árið 2017 eins og sjá má á súluritinu hér fyrir neðan.

Spá Isavia fyrir næsta ár gerir ráð fyrir áframhaldandi niðursveiflu frá því í fyrra sem skrifast að nokkru leyti á þá staðreynd að WOW air var starfandi fyrstu þrjá mánuði síðasta árs. Þar með gætir áhrifanna af falli félagsins sérstaklega á fyrsta fjórðungi en svo dregur úr samdrættinum. Langmesta fækkunin á nýju ári verður í hópi tengifarþega samkvæmt áætlun Isavia og skýrist það ekki aðeins af falli WOW heldur einnig þeirri staðreynd að fókusinn hjá Icelandair hefur færst yfir á farþega á leið til Íslands í stað þeirra sem eru á leið milli Evrópu og Norður-Ameríku.