Upp á við hjá Boeing

Það munu vera jákvæð teikn á lofti í ferlinu við að aflétta kyrrsetningu MAX þotanna að mati yfirvalda vestanhafs.

Boeing MAX þotur sem bíða eftir því að komast til kaupenda. Þarna má sjá þrjár flugvélar merktar Icelandair. Mynd: SounderBruce / CreativeCommons 4.0)

Vonir manna um að biðin eftir því að Boeing MAX þoturnar fái flugheimild á ný glæddust ögn í gær eftir tilkynningu frá Flugmálastofnun Bandaríkjanna. Þar segir að sérfræðingar stofnunarinnar séu ánægðir með þau skref sem tekin hafa verið síðustu vikur í að bæta úr göllum þotanna.

Núna eru rúmir tíu mánuðir síðan Boeing MAX þotur voru kyrrsettar um heim allan í kjölfar tveggja flugslysa þar sem 346 manna létu lífið. Icelandair var með sex þess háttar þotum í rekstri þegar flugbannið var sett á og aðrar þrjár standa merktar félaginu við verksmiðjur Boeing í Renton í Washington fylki. Alls festi Icelandair kaup á sextán slíkum þotum og er með forkaupsrétt á átta vélum í viðbót.

Í frétt Seattle Times segir að tónninn í tilkynningu flugmálastofnunarinnar sé mun jákvæðari en í þeim yfirlýsingum sem yfirmenn stofnunarinnar gáfu út stuttu fyrir áramót. Þar gagnrýndu þeir til að mynda pressuna sem stjórnendur Boeing leggðu á sérfræðinga flugmálayfirvalda. Í kjölfarið var forstjóri Boeing rekinn.

Líkt og fram kom á þriðjudag þá gera stjórnendur bandaríska flugvélaframleiðandans fyrst ráð fyrir þotunum í loftið um mitt þetta ár. Sú breyting mun hafa „óveruleg áhrif á flugáætlun“ Icelandair samkvæmt tilkynningu sem félagið sendi frá sér í vikunni.