Útlendingar bókuðu fleiri hótelnætur í fyrra

Þó fjöldi erlendra ferðamanna hafi dregist saman um fjórtan af hundraði í fyrra þá fjölgaði hótelnóttum útlendinga hér á landi. Samdráttur varð í annars konar gistingu.

Mynd: Sigurjón Ragnar/sr-photos.com
Hótelnóttum útlendinga í höfuðborginni fækkaði um tvö prósent í fyrra. Mynd: Sigurjón Ragnar/sr-photos.com

Brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll voru tæplega tvær milljónir árið 2019 eða um 329 þúsund færri en árið 2018, samkvæmt talningu Ferðamálastofu og Isavia. Fækkun milli ára nemur 14,2 prósentum og hún endurspeglast að hluta til í nýjum bráðabirgðatölum Hagstofunnar því þar kemur fram að heildarfjöldi greiddra gistinátta dróst saman um 3,1 prósent á milli áranna 2018 og 2019. Þær voru rúmlega 10 milljónir árið 2019 en tæplega 10,4 milljónir árið 2018.

Hlutfallslega er mestur samdráttur í gistingu í gegnum síður eins og Airbnb eða um 11 prósent og 3,1 prósent á hótelum og gistiheimilum. Þegar aðeins eru skoðaðar hótelnætur útlendinga kemur aftur á móti í ljós að þeim fjölgaði í fyrra um nærri sjötíu þúsund eða um tvö prósent. Voru þær samtals nærri 4,1 milljón sem er meira en nokkru sinni fyrr eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan. Gera má ráð fyrir að aukin ásókn í hótelgistingu á kostnað gistiheimila og íbúðagistingar skrifist að einhverju leyti á lækkandi herbergjaverð á hótelum. En vísbendingar eru um að verðskrár hótelanna hafi lækkað töluvert að undanförnu.