Útséð með að Icelandair fljúgi MAX þotum í sumar

Stjórnendur Boeing reikna ekki með að flugmálayfirvöld vestanhafs aflétti flugbanni MAX þotanna fyrr en í júní eða júlí. Þar með er nánast útilokað að flugfélög geti nýtt flugvélarnar yfir háannatímann.

Ein af MAX þotum Icelandair í Berlín á sínum tíma. Mynd: Berlin Airport

Annað sumarið í röð er útlit fyrir að í háloftunum verði engar Boeing 737 MAX þotur. Í tilkynningu sem flugvélaframleiðandinn sendi frá sér fyrr í kvöld segir að nú sé fyrst búist við að kyrrsetningu þotanna verði aflétt um mitt þetta ár. Í framhaldinu getur þjálfun flugmanna hafist samkvæmt fréttum vestanhafs. Það líður því einhver tími frá því að vélarnar fá leyfi til flugs á ný og þar til að þær verða nýttar í að ferja farþega.

Þar með er ljóst að flugfélög sem gerðu ráð fyrir þessari tegund flugvéla í sumar verða áfram að fylla í göt með eldri þotum eða leiguflugvélum. Hinn kosturinn er að skera niður sætaframboð yfir þetta arðbærasta tímabil ársins í rekstri flugfélaga.

Icelandair er eitt þeirra flugfélaga sem á mikið undir því að MAX þoturnar komist í loftið á ný. Síðasta sumar ætlaði félagið að fljúga níu þess háttar þotum og gert var ráð fyrir sama fjölda á komandi sumarvertíð. Félagið tilkynnti nýverið um leigu á þremur Boeing 737NG þotum. Í ljósi nýjustu vendinga er stóra spurningin hvort stjórnendur Icelandair nái að leigja fleiri vélar eða þurfi að skera niður fjölda flugferða í sumar.

Ef seinni valkosturinn verður ofan á þá mun það væntanlega hafa þónokkur áhrif á ferðamannastrauminn til Íslands í sumar. Icelandair er nefnilega langumsvifamesta flugfélagið á Keflavíkurflugvelli. Á sama tíma gætu fargjöld hækkað vegna minna framboðs.