Vægi kínverskra ferðamanna hátt í ársbyrjun

Um sex af hverjum eitt hundrað ferðamönnum sem hingað koma í febrúar ár hvert eru frá Kína. Nú er útlit fyrir að mun færri Kínverjar verði á faraldsfæti næstu vikur.

Í kringum kínversku áramótin er fjöldi kínverskra ferðamanna hér á landi umtalsverður. Mynd: Nicolas J Leclercqlas J Leclercq / Unsplash

Ef horft er til ferðamannastraumsins til Íslands frá Kína síðustu þrjú ár þá er vægi kínverskra ferðamanna hæst hér á landi í desember. Þann mánuð er um tíundi hver túristi hér á landi með kínverskt vegabréf samkvæmt talningum Ferðamálastofu.

Næst hæst er vægi Kínverja í febrúar eða um sex prósent þegar miðað er við meðaltal síðustu þriggja ára. Það hlutfall gæti lækkað í ár vegna ferðabannsins sem nú ríkir í Kína til að hefta útbreiðslu kórónaveirunnar. Nú í morgun lagði British Airways til að mynda niður allt flug til Kína í morgun og ekki er gert ráð fyrir að taka upp þráðinn fyrr en í lok næsta mánaðar samkvæmt frétt Reuters. Breska flugfélagið flýgur hingað til lands daglega frá Heathrow í London og fram hefur komið í samtölum Túrista við forsvarsfólk British Airways að Íslandsflugið hafi verið vinsælt hjá farþegaum félagsins í Asíu og sérstaklega Kína.

Megin skýringin á því að Kínverjar eru svona fjölmennir hér í ársbyrjun er sú að áramót samkvæmt kínversku tímatali eru annað hvort í enda janúar eða byrjun febrúar og vinsælt er að verja dögunum í kringum hátíðina í útlöndum. Að þessu sinni voru kínversku áramótin um nýliðna helgi og ferðabannið hafði því ekki áhrif á þá sem þegar voru lagðir af stað til útlanda. Þar með verður niðursveiflan í fjölda kínverskra ferðamanna mögulega minni.

Þegar aðeins er horft til fjölda kínverskra ferðamanna á Íslandi þá er meðaltalið hæst í desember og einnig yfir hásumarið eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan. Í febrúar hefur meðalfjöldinn verið um níu þúsund en til samanburðar koma hingað að jafnaði um 46 þúsund Bretar en þeir eru langfjölmennastir í þessum mánuði.