Vara við ferðalögum til Hubei héraðs í Kína

Ef þú átt bókaðan flugmiða til Kína á næstu viku þá er líklegt að hægt sé að breyta miðanum en endurgreiðsla er ólíklega í boði.

Wuhan borg. Þar búa 10 milljónir manna. Mynd: Benjamin Chris / Unsplash

Fimmtíu og sex hafa látist af völdum kórónaveirunnar í Kína og hátt í tvö þúsund hafa smitast. Nærri öll tilfellin er rakin til Wuhan borgar í Hubei héraði. Stjórnvöld í Bandaríkjunum og Japan ætla að bjóða sínum þegnum flutning frá borginni á næstu sólarhringum og sífellt fleiri þjóðir vara fólk við ferðalögum þangað.

Seinni partinn í dag gáfu til að mynda utanríkisþjónustur Dana, Norðmanna og Svía út ferðaviðvaranir sem ná til Hubei héraðs. Strax í framhaldinu sendi flugfélagið SAS frá sér tilkynningu þar sem allir þeir sem eiga bóka far með félaginu til Peking eða Sjanghæ næstu fjórar vikur er boðið að breyta miðunum sínum. Engin endurgreiðsla er þó í boði þar sem ferðaviðvaranir skandinavískra stjórnvalda ná aðeins til borgarinnar Wuhan og annarra hluta Hubei héraðs.

Finnska utanríkisráðuneytið hefur ennþá ekki fylgt þessu fordæmi nágrannaþjóðanna og ekki er að sjá á vef Finnair að farþegar á leið með félaginu til Kína á næstunni geti breytt sínum miðum. En bæði SAS og Finnair fljúga daglega til Íslands og nýta sér vafalítið ófáir ferðir félaganna áfram til Kína.

Það munaði reyndar ekki miklu að nú í vetur yrðu í boði áætlunarferðir milli Íslands og Wuhan borgar með millilendingu í Helsinki. Kínverska flugfélagið Tianjin hafði nefnilega fengið afgreiðslutíma á flugvöllum til að sinna þess háttar ferðum. Og stjórnendur Tianjin hafa greinilega ekki gefið þau áform upp á bátinn líkt og kom fram í erindi sendiherra Kína hér á landi í vikunni.