Samfélagsmiðlar

Veikar forsendur fyrir spá um fjölgun kínverskra ferðamanna

Það komu hingað 99 þúsund kínverskir ferðamenn í fyrra og hópurinn gæti stækkað um þrjátíu prósent samkvæmt spá sem Morgunblaðið greindi frá í gær. Það er þó ýmislegt að athuga við forsendur þessarar spár.

Þota Juneayo flugfélagsins sem flýgur hingað frá vori og fram á haust. Ekki liggur fyrir hvort framhald verði á í vetur.

Það er reiknað með 130 þúsund kínverskum ferðamönnum til Íslands í ár og að Kínverjar verði þar með þriðji stærsti ferðamanna­hóp­ur­inn hér á landi í stað Þjóðverja. Þetta segir í grein Morgunblaðsins í gær og byggir þessi fullyrðing á spá Danielle Pamela Neben, markaðsstjóra hjá Epassa. Það fyrirtæki selur kínverskar greiðslulausnir til íslenskra fyrirtækja og hefur þar með hag af væntingum um áframhaldandi fjölgun kínverskra ferðamanna hér á landi.

Eigi þessi spá Epassa að ganga eftir þá þarf hópur kínverskra ferðamanna að stækka úr 99 þúsund í 130 þúsund í ár eða um þrjátíu prósent. Á sama tíma yrði þeim þýsku hér á landi að fækka um nokkur þúsund því hingað komu 132 þúsund Þjóðverjar í fyrra samkvæmt talningum Ferðamálastofu.

Aðspurð um forsendur þessarar spár þá segir Neben, í samtali við Túrista, að hún byggi á hana á því að kínverskum ferðamönnum fjölgi í takt við það sem gerðist milli áranna 2018 og 2019. Þá fór fjöldinn úr 89 þúsund Kínverjum upp í 99 þúsund. Verði aukningin einnig um tíund í ár þá stækkar hópurinn upp í 110 þúsund kínverska ferðamenn. Því til viðbótar þá bendir Neben á að fram hafi komið í máli forsvarsmanna Juneayjo flugfélagsins, sem senn hefur áætlunarflug frá Sjanghæ til Íslands með millilendingu í Helsinki, að gert sé ráð fyrir 20 þúsund farþegum með félaginu til Íslands. Þar með verði kínversku ferðamennirnir í 130 þúsund á þessu ári.

Þessi ferðamannaspá er vissulega bara ein af mörgum sem settar hafa verið fram hér á landi um þróunina í ferðaþjónustunni. Og fæstar þeirra hafa hitt í mark enda ekki einfalt að spá nákvæmlega fyrir um þessi mál. Það er þó full ástæða til að benda á annmarkana við þær forsendur sem markaðsstjóri Epassa gefur sér og Morgunblaðið birti í gær.

Í fyrsta lagi þá er nærri ómögulegt fyrir Juneayo Airlines flytja hingað 20 þúsund Kínverja í ár. Jafnvel þó forstöðumaður félagsins á Norðurlöndum hafi sagt, í viðtali við Fréttablaðið í nóvember, að áætlanir gerðu ráð fyrir að svo margir farþegar myndu fljúga með félaginu til Íslands.

Staðreyndin er nefnilega sú að núverandi sætaframboð félagsins er rétt um 20 þúsund sæti frá lokum mars og fram í enda október. Og í svari Juneayo, við fyrirspurn Túrista, þá segir að fullyrðingin um 20 þúsund ferðamenn frá Kína hafi byggt á flugi yfir heilt ár til Íslands en ekki fyrir þessar þrjátíu vikur sem nú hafi verið settar í sölu. Talsmaður kínverska flugfélagsins segir að ekki verið tekin ákvörðun um hvort Íslandsflugið verði á boðstólum næsta vetur. 

Miðað við þessi svör þá væri kannski réttara að segja að Juneayo Airlines muni flytja á bilinu 12 til 15 þúsund kínverska ferðamenn til Íslands í ár. Markaðsstjóri Epassa er þó ekki sú eina sem tók fyrri tölunni trúanlegri, það gerði líka sá sem hér skrifar til að byrja með.

Hvað sem því líður er óraunhæft að halda að ferðir kínverska flugfélagsins verði hrein viðbót við það sem fyrir er. Sérstaklega í ljósi þess að félagið flýgur frá Sjanghæ en þaðan má líka fljúga með Finnair, Lufthansa, SAS og British Airways til Íslands með millilendingu í Evrópu líkt og Juneayo Airlines býður upp á.

Hin meginforsenda fyrir spá Epassa var svo sú að kínverskum ferðamönnum myndi fjölga í takt við það sem gerðist á nýliðnu ári og sérstaklega þá níu mánuði sem WOW air var ekki í loftinu. Þá var aukningin tíund líkt og kom fram í máli Neben hér að ofan. Hins vegar var aukningin aðeins fjögur prósent árið 2018 en rúmur fjórðungur árin þar á undan. Þarna hafa því verið miklar sveiflur síðustu ár og vísbendingar um að samdráttur British Airways hér á landi hafi veruleg áhrif á straum Kínverja til landsins.

Það hefur þannig komið fram í samtölum Túrista við forsvarsfólk breska flugfélagsins að eftirspurn eftir Íslandsflugi félagsins hafi verið mikil frá kínverskum farþegum. Aftur á móti hefur British Airways fækkað ferðum hingað í vetur. Í desember sl. flugu þotur félagsins 28 ferðir til Keflavíkurflugvallar sem er nærri helmings samdráttur frá sama tímabili 2018 samkvæmt talningum Túrista. Á móti kemur að Finnar, sem er stórtækt í Evrópuflugi frá Asíu, fjölgaði sínum ferðum til  Íslands úr 19 í 30 í desember. Fjöldi kínverskra ferðamanna hér á landi í desember 2019 var því óbreyttur.

Að lokum smávegis um fullyrðinguna um að kínverskir ferðamenn verði hér fleiri en Þjóðverjar í ár. Ef hún á að ganga eftir þá þarf Kínverjunum ekki aðeins að fjölga líkt og rakið er hér að ofan heldur þarf Þjóðverjunum að fækka líkt og í fyrra. Þá nam niðursveiflan fimm prósentum. Megin skýringin á því var ekki bara fall WOW air, sem flaug til Berlínar og Frankfurt, heldur líka gjaldþrot Germania. Þetta þýska flugfélag flutti um 8 til 9 þúsund þýska ferðamenn til Íslands árið 2018.

Neikvæðu áhrifin af falli flugfélaganna tveggja komu því fram í fyrra og miðað við flugframboð þessa árs þá er kannski ekki ástæða til að reikna með færri Þjóðverjum í ár. Þýsku ferðamönnunum hér á landi hefur til að mynda fjölgað samkvæmt talningu Ferðamálastofu í nóvember og desember. Icelandair ætlar reyndar að fækka ferðum til Frankfurt og Hamborg í sumar en fjölga til Berlínar í staðinn.

Þess má svo geta að forsvarsmenn Central Pay, keppinauts Epassa í sölu á kínverskum greiðslulausnum, sögðu í samtali við Viðskiptablaðið í hittifyrra að spár gerðu ráð fyrir að kínverskum ferðamönnum myndi fjölgi í 108.000 á árinu 2018. Raunin var hins vegar sú að fjöldinn fór upp í 89 þúsund. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins bætti því svo við að útgefnar tölur frá kínverskum stjórnvöldum bentu til þess að 300 þúsund kínverskir ferðamenn myndu sækja Ísland heim árið 2020.

Gangi sú spá eftir þá fara Kínverjar ekki bara upp í þriðja sætið á listanum yfir fjölmennustu þjóðirnar í hópi ferðamanna hér á landi heldur líka upp fyrir Bretana sem sitja í öðru sæti.

Nýtt efni

Fyrir viku hélt Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, fund með helstu ráðgjöfum sínum, innanríkisráðherra og fulltrúum veðurstofu og almannavarna landsins til að ræða viðbrögð við hitatíðinni framundan, frá apríl til júní. Sérstaklega er talin ástæða nú til aðgæslu vegna áhrifa loftslagsbreytinga á veðurfar. Verulegar líkur eru taldar á að hiti fari fram úr venjulegum hámarkshita í …

Frumvarp um að veita þúsundum óskráðra innflytjenda á Spáni heimild til landvistar og atvinnu er nú til meðferðar í fulltrúadeild spænska þingsins (Congreso de los Diputados) eftir að 700 þúsund manns höfðu undirritað áskorun um setningu laga þessa efnis. Nærri 900 samtök studdu þessa áskorun um að breyta stöðu óskráðra útlendinga í landinu.  Ef fyrirliggjandi …

Farþegar á leið til New York frá Róm, París, Ósló, London, Berlín eða Aþenu geta flogið beint með norska lágfargjaldaflugfélaginu Norse Atlantic. Í mörgum tilfellum er félagið með ódýrustu sætin á þessum leiðum og keppir því við íslensku flugfélögin um þá farþega sem vilja komast á milli fyrir sem minnst og setja það ekki fyrir …

„Tilgangurinn er að sýna hvað höfuðborgarsvæðið hefur að bjóða í ferðaþjónustu og byggja upp þekkingu meðal þeirra sem í henni starfa," sagði Inga Hlín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins, þegar FF7 hitt hana skömmu eftir að sýningin HITTUMST var opnuð í Hafnarhúsinu í dag. Nokkur hópur var þegar kominn að skoða það sem í boði er …

Hilton-hótelkeðjan hefur gert samning um byggingu og rekstur tveggja hótela hér á landi í samstarfi við Bohemian Hotels ehf. Stefnt er að því að opna það fyrra við Hafnarstræti á Akureyri næsta sumar en þar verða 70 herbergi og mun hótelið bera heitið Skáld Hótel Akureyri. Seinna hótelið opnar við Bríetartún, við hlið Frímúrarahallarinnar í …

Flugfélagið Play hefur hafið miðasölu á flugi til Cardiff í Wales og er þetta gert vegna mikils áhuga á leikjum íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu gegn Wales í Þjóðadeildinni sem fara fram næstkomandi haust.  Þetta kemur fram í tilkynningu. Íslenska liðið mætir liði Wales á Laugardalsvelli 11. október en liðin mætast aftur á heimavelli Wales í Cardiff …

Í þeirri viðleitni að hemja troðningstúrisma hafa borgaryfirvöld í Amsterdam ákveðið að leyfa ekki byggingu fleiri hótela í miðborginni. Þrátt fyrir að kröfur hafi verið hertar í borginni gagnvart nýbyggingum hótela þá eru yfir 20 hótel nú á teikniborðinu, segir NL Times. Takmörkunin nær auðvitað ekki til þeirra hótela sem þegar hafa verið samþykkt. Túristar …

Como-vatn á Langbarðalandi dregur til sín um 1,4 milljónir ferðamanna á ári - og í glæsihúsum við vatnið hefur margt frægt og ríkt fólk athvarf. Meðal þeirra sem eiga hús þarna eru George Clooney, Donnatella Versace og Richard Branson. Kannski er það ekki síst efnaða fólkið sem orðið er þreytt á átroðningi - að venjulegir …