Veikar forsendur fyrir spá um fjölgun kínverskra ferða­manna

Það komu hingað 99 þúsund kínverskir ferðamenn í fyrra og hópurinn gæti stækkað um þrjátíu prósent samkvæmt spá sem Morgunblaðið greindi frá í gær. Það er þó ýmislegt að athuga við forsendur þessarar spár.

Þota Juneayo flugfélagsins sem flýgur hingað frá vori og fram á haust. Ekki liggur fyrir hvort framhald verði á í vetur. Mynd: Juneayo Airlines

Það er reiknað með 130 þúsund kínverskum ferða­mönnum til Íslands í ár og að Kínverjar verði þar með þriðji stærsti ferðamanna­hóp­ur­inn hér á landi í stað Þjóð­verja. Þetta segir í grein Morg­un­blaðsins í gær og byggir þessi full­yrðing á spá Danielle Pamela Neben, mark­aðs­stjóra hjá Epassa. Það fyrir­tæki selur kínverskar greiðslu­lausnir til íslenskra fyrir­tækja og hefur þar með hag af vænt­ingum um áfram­hald­andi fjölgun kínverskra ferða­manna hér á landi.

Eigi þessi spá Epassa að ganga eftir þá þarf hópur kínverskra ferða­manna að stækka úr 99 þúsund í 130 þúsund í ár eða um þrjátíu prósent. Á sama tíma yrði þeim þýsku hér á landi að fækka um nokkur þúsund því hingað komu 132 þúsund Þjóð­verjar í fyrra samkvæmt taln­ingum Ferða­mála­stofu.

Aðspurð um forsendur þess­arar spár þá segir Neben, í samtali við Túrista, að hún byggi á hana á því að kínverskum ferða­mönnum fjölgi í takt við það sem gerðist milli áranna 2018 og 2019. Þá fór fjöldinn úr 89 þúsund Kínverjum upp í 99 þúsund. Verði aukn­ingin einnig um tíund í ár þá stækkar hópurinn upp í 110 þúsund kínverska ferða­menn. Því til viðbótar þá bendir Neben á að fram hafi komið í máli forsvars­manna Juneayjo flug­fé­lagsins, sem senn hefur áætl­un­ar­flug frá Sjanghæ til Íslands með milli­lend­ingu í Hels­inki, að gert sé ráð fyrir 20 þúsund farþegum með félaginu til Íslands. Þar með verði kínversku ferða­menn­irnir í 130 þúsund á þessu ári.

Þessi ferða­mannaspá er vissu­lega bara ein af mörgum sem settar hafa verið fram hér á landi um þróunina í ferða­þjón­ust­unni. Og fæstar þeirra hafa hitt í mark enda ekki einfalt að spá nákvæm­lega fyrir um þessi mál. Það er þó full ástæða til að benda á annmarkana við þær forsendur sem mark­aðs­stjóri Epassa gefur sér og Morg­un­blaðið birti í gær.

Í fyrsta lagi þá er nærri ómögu­legt fyrir Juneayo Airlines flytja hingað 20 þúsund Kínverja í ár. Jafnvel þó forstöðu­maður félagsins á Norð­ur­löndum hafi sagt, í viðtali við Frétta­blaðið í nóvember, að áætlanir gerðu ráð fyrir að svo margir farþegar myndu fljúga með félaginu til Íslands.

Stað­reyndin er nefni­lega sú að núver­andi sætaframboð félagsins er rétt um 20 þúsund sæti frá lokum mars og fram í enda október. Og í svari Juneayo, við fyrir­spurn Túrista, þá segir að full­yrð­ingin um 20 þúsund ferða­menn frá Kína hafi byggt á flugi yfir heilt ár til Íslands en ekki fyrir þessar þrjátíu vikur sem nú hafi verið settar í sölu. Tals­maður kínverska flug­fé­lagsins segir að ekki verið tekin ákvörðun um hvort Íslands­flugið verði á boðstólum næsta vetur. 

Miðað við þessi svör þá væri kannski réttara að segja að Juneayo Airlines muni flytja á bilinu 12 til 15 þúsund kínverska ferða­menn til Íslands í ár. Mark­aðs­stjóri Epassa er þó ekki sú eina sem tók fyrri tölunni trúan­legri, það gerði líka sá sem hér skrifar til að byrja með.

Hvað sem því líður er óraun­hæft að halda að ferðir kínverska flug­fé­lagsins verði hrein viðbót við það sem fyrir er. Sérstak­lega í ljósi þess að félagið flýgur frá Sjanghæ en þaðan má líka fljúga með Finnair, Luft­hansa, SAS og British Airways til Íslands með milli­lend­ingu í Evrópu líkt og Juneayo Airlines býður upp á.

Hin megin­for­senda fyrir spá Epassa var svo sú að kínverskum ferða­mönnum myndi fjölga í takt við það sem gerðist á nýliðnu ári og sérstak­lega þá níu mánuði sem WOW air var ekki í loftinu. Þá var aukn­ingin tíund líkt og kom fram í máli Neben hér að ofan. Hins vegar var aukn­ingin aðeins fjögur prósent árið 2018 en rúmur fjórð­ungur árin þar á undan. Þarna hafa því verið miklar sveiflur síðustu ár og vísbend­ingar um að samdráttur British Airways hér á landi hafi veruleg áhrif á straum Kínverja til landsins.

Það hefur þannig komið fram í samtölum Túrista við forsvars­fólk breska flug­fé­lagsins að eftir­spurn eftir Íslands­flugi félagsins hafi verið mikil frá kínverskum farþegum. Aftur á móti hefur British Airways fækkað ferðum hingað í vetur. Í desember sl. flugu þotur félagsins 28 ferðir til Kefla­vík­ur­flug­vallar sem er nærri helm­ings samdráttur frá sama tíma­bili 2018 samkvæmt taln­ingum Túrista. Á móti kemur að Finnar, sem er stór­tækt í Evrópuflugi frá Asíu, fjölgaði sínum ferðum til  Íslands úr 19 í 30 í desember. Fjöldi kínverskra ferða­manna hér á landi í desember 2019 var því óbreyttur.

Að lokum smávegis um full­yrð­inguna um að kínverskir ferða­menn verði hér fleiri en Þjóð­verjar í ár. Ef hún á að ganga eftir þá þarf Kínverj­unum ekki aðeins að fjölga líkt og rakið er hér að ofan heldur þarf Þjóð­verj­unum að fækka líkt og í fyrra. Þá nam niður­sveiflan fimm prósentum. Megin skýr­ingin á því var ekki bara fall WOW air, sem flaug til Berlínar og Frankfurt, heldur líka gjald­þrot Germania. Þetta þýska flug­félag flutti um 8 til 9 þúsund þýska ferða­menn til Íslands árið 2018.

Neikvæðu áhrifin af falli flug­fé­lag­anna tveggja komu því fram í fyrra og miðað við flug­framboð þessa árs þá er kannski ekki ástæða til að reikna með færri Þjóð­verjum í ár. Þýsku ferða­mönn­unum hér á landi hefur til að mynda fjölgað samkvæmt taln­ingu Ferða­mála­stofu í nóvember og desember. Icelandair ætlar reyndar að fækka ferðum til Frankfurt og Hamborg í sumar en fjölga til Berlínar í staðinn.

Þess má svo geta að forsvars­menn Central Pay, keppi­nauts Epassa í sölu á kínverskum greiðslu­lausnum, sögðu í samtali við Viðskipta­blaðið í hittifyrra að spár gerðu ráð fyrir að kínverskum ferða­mönnum myndi fjölgi í 108.000 á árinu 2018. Raunin var hins vegar sú að fjöldinn fór upp í 89 þúsund. Fram­kvæmda­stjóri fyrir­tæk­isins bætti því svo við að útgefnar tölur frá kínverskum stjórn­völdum bentu til þess að 300 þúsund kínverskir ferða­menn myndu sækja Ísland heim árið 2020.

Gangi sú spá eftir þá fara Kínverjar ekki bara upp í þriðja sætið á list­anum yfir fjöl­menn­ustu þjóð­irnar í hópi ferða­manna hér á landi heldur líka upp fyrir Bretana sem sitja í öðru sæti.