Vonar að Arion losi sig við Heims­ferðir sem fyrst

Forstjóri Úrval-Útsýn telur óeðlilegt að þurfa að keppa við banka í sölu á sólarlandaferðum. Hún er líka gagnrýnin á endurkomu Andra Más Ingólfssonar og vísar í lágt hlutafé í nýju ferðaskrifstofunni hans.

Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Úrval-Útsýn.

Heims­ferðir, Vita og Úrval-Útsýn eru þrjár stærstu ferða­skrif­stofur landsins en sú fyrst­nefnda er, ásamt fimm öðrum norrænum ferða­skrif­stofum, í eigu Arion banka. Ástæðan er sú að síðast­liðið sumar leysti bankinn til sín allar þær ferða­skrif­stofur sem áður tilheyrðu Primera Travel samsteypu Andra Más Ingólfs­sonar, stofn­anda Heims­ferða.

Þórunn Reyn­is­dóttir, forstjóri Úrval-Útsýn, segist telja það óeðli­legt út frá samkeppnis sjón­ar­miðum að þurfa að keppa við banka. „Eins og þetta lítur út í dag er Arion banki að leigja flug­vélar til að fljúga fólki í sólar­landa­ferðir,” segir Þórunn og vísar til þess að nú hafa Heims­ferðir gengið frá leigu­samn­ingi um afnot af flugvél ítalsks flug­fé­lags í allt sumar. Samtals verða sæti fyrir um 34 þúsund manns, báðar leiðir. „Ég vona því að bankinn losi sig við Heims­ferðir sem sem fyrst,” segir Þórunn en hún vill ekki tjá sig um hvort Úrval-Útsýn hafi sýnt áhuga á kaupum á Heims­ferðum.

Sem fyrr segir þá tók Arion yfir Heims­ferðir í júní í fyrra en þá hafði Andri Már Ingólfs­sonar rekið fyrir­tækið frá stofnun þess árið 1992. Andri Már hefur þó boðað endur­komu sína og er að setja á stofn nýja ferða­skrif­stofu. „Mér finnst það með ólík­indum að Andri Már komi núna, korteri eftir að hafa misst ferða­skrif­stof­urnar til bankans, og ætli að hefja leik á ný eins og ekkert sé eðli­legra. Það er ekkert eðli­legt við það. Svo kemur Andri fram í fjöl­miðlum og segir að hann sé full­fjár­magn­aður. Nýstofnaða fyrir­tækið hans er með hlutafé upp á 500 þúsund krónur samkvæmt fyrir­tækja­skrá,” bendir Þórunn á máli sínu til stuðn­ings. „Þetta sýnir bara hvað þrösk­uld­urinn er lágur í þessum rekstri og eitt­hvað bogið við kerfið.”

Í nýrri umfjöllun Túrista um ferða­skrif­stofu­mark­aðinn var vísað til þess að þrjár stærstu ferða­skrif­stofur landsins væru of litlar til að geta staðið sjálfar undir ferðum á eigin áfanga­staði. Og það væri megin skýr­ingin á því að farþegum Heims­ferða, Vita og Úrval-Útsýn er oft flogið í sömu flug­vél­unum suður  á bóginn. Undir þetta tók Kemal Yamanlar, fram­kvæmda­stjóri Nazar, sem bauð upp á sólar­landa­ferðir héðan til Tyrk­lands fyrir nokkrum árum síðan.

Aðspurð um þetta atriði þá segist Þórunn geta geta tekið undir að þær stærstu séu of litlar að einhverju leyti. Hún full­yrðir þó að þau hjá Úrval-Útsýn gætu alltaf ákveðið að fara ein á einhvern ákveðinn áfanga­stað án þess að kaupa sæti af t.d. Icelandair eða Norwegian. „Það hefur einfald­lega verið nægt framboð að flugi til og frá landinu. Við erum alltaf að skoða nýja áfanga­staði en við höfum þó ekki fundið nýjan góðan sem við teljum ákjós­an­legan eins og árferðið er núna.”

Þórunn er aftur á móti ekki sammála því að Spánn sé erfiður og dýr mark­aður líkt og Yamanlar hélt fram. „Spánn ekki dýr mark­aður og við erum með mjög góða samn­inga á öllum okkar áfanga­stöðum þar í landi. Það er einnig mikill áhugi fyrir ferða­lögum til Spánar sem skýrir meðal annars fram­boðið á flugi þangað.”

Þó Úrval-Útsýn setji stefnuna á nokkurn veginn sömu sólar­staði í sumar og undan­farin ár, að frátöldum ferðum til Madeira, þá er ferða­skrif­stofan að feta sig inn á nýjar lendur. „Við erum að opna fyrstu raun­veru­legu netferða­skrif­stofuna hér á landi þar sem hægt verður að bóka farmiða með öllum flug­félög. Tilgang­urinn með þessari þjón­ustu er einfald­lega sá það bjóða fólki, sem vill ferðast á eigin vegum, að nýta sér kostina og öryggið sem fylgir því að versla við alís­lenska ferða­skrif­stofu eins og okkar. Í stað þess að þurfa að hringja í þjón­ustuver í fjar­lægu landi ef eitt­hvað gerist eða jafnvel aldrei ná í neinn hjá þessu erlenda fyrir­tæki sem ferðin var keypt af.

NÚ GETUR ÞÚ STUTT VIÐ ÚTGÁFU TÚRISTA