Voru tilbúin með sumaráætlun án MAX þota

Í gærkvöld gaf Boeing flugvélaframleiðandinn það út að aflétting á kyrrsetningu MAX þotanna yrði í fyrsta lagi aflétt í sumar. Í kjölfar sendi Icelandair frá sér tilkynningu þar sem segir að áhrifn af þessu verði óveruleg.

Mynd: Boeing

Aðra sumarvertíðina í röð verður Icelandair án MAX þotanna. Ástæðan er sú að nú gera stjórnendur Boeing fyrst ráð fyrir að breytingar á þotunum fái samþykki flugmálayfirvalda um mitt sumar. Áætlanir Icelandair gerðu aftur á móti ráð fyrir þotunum í maí, áður en háannatíminn í fluginu fer í gang.

Þrátt fyrir það þá mun áframhaldandi kyrrsetning MAX þotanna hafa óveruleg áhrif á flugáætlun Icelandair. Þetta kom fram í tilkynningu sem félagið sendi frá sér í gærkvöld.

„Vegna ráðstafana sem félagið hefur þegar gripið til verða áhrif á útgefna flugáætlun félagsins óveruleg. Ástæður þess eru að hún var sett upp með það að leiðarljósi að takmarka áhrif frekari tafa á afléttingu kyrrsetningarinnar. Búið er að leigja inn þrjár Boeing 737-800 vélar og ákveðnum fjölda Boeing 757 véla verður haldið lengur í flota félagsins en áður hafði verið gert ráð fyrir,“ segir í tilkynningu.

Forsvarsfólk Icelandair hefur því verið undir það búið að flugbann MAX þotann yrði framlengt. Og ekki virðist sem félagið þurfi að leiga fleiri flugvélar eða fækka ferðum til að fylla skarð MAX þotanna líkt og leiddar voru líkur að hér.

„Áhersla Icelandair á þessu ári verður líkt og á síðasta ári á ferðamannamarkaðinn til Íslands. Félagið gerir ráð fyrir að flytja að lágmarki jafnmarga farþega til Íslands á árinu 2020 og árið 2019,“ segir í jafnframt tilkynningu.

Þar kemur einnig fram að Icelandair telji ljóst að fjárhagsleg áhrif áframhaldandi kyrrsetningar verða mun minni á árinu 2020 en þau voru árið 2019 en viðræður um frekari skaðabætur frá Boeing standa yfir og stefnir Icelandair Group að því að fá allt tjón vegna MAX kyrrsetningarinnar bætt.