WOW á leið til Sikileyjar?

Michele Roosevelt Edwards, stjórnarformaður WOW air, sviptir mögulega hulunni af nýjum áfangastað félagsins í færslu á Linkedin.

Mynd: Sigurjón Ragnar / sr-photos.com

Eina flugleiðin sem aðstandendur endurreisnar WOW air hafa vilja gefa upp er flug milli Íslands og Dulles flugvallar við Washington, höfuðborg Bandaríkjanna. Michele Roosevelt Edwards, forsprakki endurreisnarinnar, hefur talað um að koma upp sérstökum WOW biðstofum í bæði Leifsstöð og Dulles flugstöðinni.

Hvað sem þeim áformum líður þá er ljóst að í Washington borg er unnið að opnun söluskrifstofu WOW sem jafnframt mun hýsa kaffihús. Þar innandyra verður einnig verslun samkvæmt því sem fram kemur í nýrri færslu Edwards á samfélagsmiðlinum Linkedin. Þar segir hún frá opnun verslunarrýmis þar sem á boðstólum verður varningur frá áfangastöðum WOW og tilgreinir hún þar Ísland og ítölsku eyjuna Sikiley.