WOW þarf í samstarf við Icelandair eða Play

Þó hið endurreista WOW air ætli í loftið í mars þá hefur félagið ekki ennþá fengið afgreiðslutíma á flugvöllum fyrir ferðir til og frá Íslandi. Staða Play er sú sama en nú mun einn af eigendum Airport Associates vinna að fjármögnun félagsins. Þar með gæti WOW þurft að leita til Icelandair með alla þjónustu á Keflavíkurflugvelli.

Airport Associates sá um þjónustu við flugvélar WOW air. Nú er fer annar af stærstu eigendum fyrirtækisins fyrir hópi fjárfesta í Play. Mynd: Isavia

Ef upphafleg áform um endurreisn WOW air og stofnun Play hefðu gengið eftir þá væru flugfélögin í dag þrjú talsins sem gerðu út frá Keflavíkurflugvelli. Það hefur hins vegar tekið mun lengri tíma að koma félögunum í loftið en í vikunni sagði Mbl.is frá því að nú væri stefnt að jómfrúarflugi hins nýja WOW air í mars. Fréttablaðið greinir svo frá því í dag að Elías Skúli Skúlason, stærsti eigandi flugþjónustufyrirtækisins Airport Associates, færi fyrir hópi nýrra fjárfesta í Play.

Airport Associates sá um alla þjónustu við flugvélar WOW air hér á landi og sú spurning vaknar því hvort þessi nýju tengsl milli fyrirtækisins og Play verði til þess að Michelle Roosevelt Edwards, upphafskona endurreisnar WOW, leiti annað með þjónustu við þotur sínar á Keflavíkurflugvelli. Þar hefur hún þó ekki úr mörgum kostum að velja því hitt fyrirtækið í þeim geira er IGS sem er í eigu Icelandair Group. Minni flugþjónustufyrirtæki munu varla geta sinnt afgreiðslu á þotum með mikla frakt en líkt og áður hefur komið fram ætlar WOW air sé stóra hluti í vöruflutningum til og frá Íslandi.

Forsenda fyrir því að flugfélög geti hafið sölu á farmiðum og flutningum er hins vegar að fyrir liggi afgreiðslutímar á flugvöllum. Heimildir Túrista herma að hvorki Play né WOW hafi fengið lendingartíma á Keflavíkurflugvelli eða út í heimi. Forsenda fyrir þess háttar úthlutun er að viðkomandi fyrirtæki hafi flugrekstrarleyfi en forsvarsmenn Play sóttu um slíkt í lok síðasta sumars. Ekki hafa fengist upplýsingar um hvaða flugrekstrarleyfi WOW air hyggst nota.

NÚ GETUR ÞÚ STUTT VIÐ ÚTGÁFU TÚRISTA