10 þúsund færri flugu innanlands

Vont veður skýrir að miklu leyti afhverju farþegum í innanlandsflugi fækkað svona mikið í janúar.

flugvel innanlands isavia
Mynd: Isavia

Síðustu tvö ár hafa farþegatölurnar á innanlandsflugvöllunum verið á niðurleið. Sú þróun hélt áfram í janúar en þá fóru tæplega 10 þúsund færri um flugvelli landsins ef Keflavíkurflugvöllur er frátalinn. Sérstaklega vont veður skýrir líklegast stærstan hluta af þessari fækkun.

Hjá Air Iceland Connect drógst þannig sætaframboð saman um nærri þriðjung vegna þess hve mörgum ferðum þurfti að aflýsa. Aftur á móti voru flugvélar félagsins mun þéttsetnari en áður og sætanýtingin 71 prósent en hún var 57 prósent í janúar í fyrra.

Eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan þá var samdrátturinn hlutfallslega mestur á Akureyri í janúar eða 31 prósent. Þar spilar inní að í ársbyrjun í fyrra stóð breska ferðaskrifstofan Super Break fyrir beinu flugi til Akureyrar. Ferðaskrifstofan varð aftur á móti gjaldþrota í fyrra og enginn annar tók við Akureyrarfluginu frá Bretlandi. Aftur á móti hófst tímabundið beint flug frá Amsterdam til Akureyrar í gær.