Ætla ekki að nýta lendingarleyfi á Keflavíkurflugvelli

Stjórnendur kanadíska lággjaldaflugfélagsins WestJet fengu umbeðna afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli í sumar. Það er þó ekki von á þotum félagsins hingað til lands.

Boeing MAX þota merkt WestJet. Mynd: WestJet

Flugsamgöngur milli Íslands og Toronto, fjölmennustu borgar Kanada, hafa verið tíðar síðustu ár. Icelandair hefur sinnt flugleiðinni allt árið um kring og það gerði WOW air líka. Á sumrin bætist svo við áætlunarflug Air Canada og forsvarsfólk kanadíska lággjaldaflugfélagsins WestJet horfir líka til Íslands. Þannig fékk félagið úthlutaða afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli í sumar samkvæmt þeirri áætlun sem finna má á heimaíðu flugvallarins. Um var að ræða fjórar ferðir í viku hingað frá Toronto yfir hásumarið.

Ekkert verður þó af þessu Íslandsflugi WestJet, það staðfestir upplýsingafulltrúi félagsins í svari til Túrista. „WestJet, eins og mörg önnur flugfélög, sækir um afgreiðslutíma víða um heim til að öðlast skilning á því hvar lendingarleyfi eru á lausu en líka til að halda möguleikum opnum. Skiljanlega höfum við ekkert um það að segja hvaða afgreiðslutímar standa okkur svo til boða og hvort þeir henti starfseminni eða ekki. Sumardagskrá okkar var nýverið kynnt og við höfum ekki uppi nein áform um að fljúga til Íslands í ár.“

Það er því ljóst að Icelandair og Air Canada verða annað sumarið í röð ein um flugið héðan til Kanada. En líkt og Túristi hefur áður greint frá þá þurfti kanadíska flugfélagið að skera niður sætaframboð í Íslandsflugi sínum vegna kyrrsetningar MAX þotanna. Félagið nýtti þess háttar flugvélar í ferðirnar hingað sumarið 2018 en varð að nota Airbus 319 í stað þeirra síðastliðið sumar. Þær flugvélar taka nokkru færri farþega en MAX þoturnar.

Þess má geta að afgreiðslutímar WestJet á Keflavíkurflugvelli voru fráteknir fyrir Boeing MAX 9 þotur. Áframhaldandi kyrrsetning þeirra flugvéla gæti því hafa haft eitthvað með það að gera að ekkert varð af Íslandsflugi kanadíska flugfélagsins að þessu sinni.