Áfram mikið tap hjá Icelandair

Reksturinn batnaði á síðasta fjórðungi ársins hjá Icelandair en heildartapið jókst engu að síður. Skýringin liggur meðal annars í hinum kyrrsettu MAX þotum.

Hinar kyrrsettur MAX þotur Icelandairþ Mynd: Gunnlaugur Rögnvaldsson

Ekki sér fyrir endann á þeirri miklu ókyrrð sem ríkt hefur í íslenskum flugrekstri síðustu tvö ár eða svo. Það endurspeglast í uppgjöri sem Icelandair sendi frá sér nú í kvöld. Þar kemur fram að félagið tapaði 7,1 milljarði í fyrra. Það er aukning frá árinu 2018 þegar tapið nam 6,8 milljörðum kr. en félagið var rekið með hagnaði árin þar á undan. Jákvæðu fréttirnir fyrir hluthafa Icelandair eru þó að tapreksturinn á fjórða fjórðungi síðasta árs gekk betur en á sama tíma í fyrra og búist er við viðsnúningi í ár.

Skýringin á taprekstrinum árið 2018 var m.a. sögð hörð samkeppni, lág fargjöld og mikil hækkun eldsneytisverðs. Árið 2019 minnkaði samkeppnin verulega þegar horft er til flugs til og frá Íslandi í kjölfar gjaldþrots WOW air. Icelandair hefur sótt fram á þeim markaði og flutti þannig fjórðungi fleiri ferðamenn til Íslands í fyrra. Aftur á móti fækkar tengifarþegum hratt en áfram er keppnin hörð um þá sem fljúga milli Norður-Ameríku og Evrópu þó hún hafi tekið breytingum. Þannig hafa meðalfargjöld Norwegian, sem hefur leitt fargjaldalækkunina í flugi yfir N-Atlantshaf, farið hækkandi síðustu mánuði.

Helsta skýringin á því að Icelandair náði ekki vopnum sínum á ný eftir fall WOW liggur væntanlega í MAX þotunum. Þær voru kyrrsettar um miðjan mars eftir tvö mannskæð flugslys en rekstur WOW stöðvaðist svo hálfum mánuði síðar.

„Uppgjör fjórða ársfjórðungs er í samræmi við væntingar stjórnenda og afkomuspá félagsins. Við bættum rekstur félagsins með umbótum í leiðakerfinu, bættri tekjustýringu, betri nýtingu starfsmanna og með því að bæta stundvísi félagsins sem dró úr kostnaði vegna raskana í leiðakerfinu. Árið í heild var krefjandi þar sem kyrrsetning MAX véla hafði fordæmalaus áhrif á rekstur Icelandair með töpuðum tekjum, auknum kostnaði og takmörkunum í nýtingu áhafna og flota félagsins. Með áherslu á aukna arðsemi leiðakerfisins og hagræðingu í rekstri náðist töluverður bati í undirliggjandi rekstri,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, í tilkynningu.

„Ég tel að með skýrri stefnu, sveigjanlegu leiðakerfi, sterkri fjárhagsstöðu og framúrskarandi starfsfólki, munum við ná markmiðum okkar um bætta arðsemi félagsins á árinu 2020 og styrkja þannig undirstöður félagsins enn frekar fyrir sjálfbæran og arðbæran vöxt til framtíðar,“ segir Bogi Nils.

Líkt og áður hefur komið fram voru bætur frá Boeing vegna MAX þotanna færðar sem tekjur og til lækkunar á kostnaði. Ekki liggur fyrir hversu há bótaupphæðin var og þar með er ómögulegt að reikna út hvernig farþegatekjur Icelandair hafa þróast.