Draga úr Íslandsflugi frá Montreal

Nú er ekki lengur hægt að bóka beint flug með Air Canada frá Montreal í júní.

Farþegarými í MAX þotu Air Canada. Mynd: Air Canada

Þotur kanadíska flugfélagsins Air Canada hafa síðustu sumur flogið hingað yfir sumarmánuðina frá bæði Toronto og Montreal. Áætlun Keflavíkurflugvallar gerir ráð fyrir áframhaldi ferðum kanadíska flugfélagsins frá þessum tveimur fjölmennustu borgum Kanada í allt sumar.

Samkvæmt bókunarsíðu Air Canada er þó ekki lengur hægt að bóka beint flug milli Íslands og Montreal í júní en þann mánuð var gert ráð fyrir ellefu brottförum og sætaframboðið taldi um fimmtán hundruð sæti. Áætlunarflugið milli Íslands og Toronto er þó ennþá inni. Túristi hefur leitað skýringa á þessum breytingum en ekki fengið nein svör frá Air Canada.

Líkt og áður hefur komið fram þá nýtti flugfélagið Boeing MAX þotur í Íslandsflugið sumarið 2018 og ætlunin var að halda því áfram í fyrra. Vegna kyrrsetningar MAX þotanna þá hafa minni Airbus flugvélar verið nýttar í staðinn en þær rúma nokkru færri farþega en hinar umtöluðu MAX þotur.

Þrátt fyrir breytta áætlun í flugi Air Canada frá Montreal þá verður áfram hægt að fljúga héðan beint til borgarinnar. Þotur Icelandair taka nefnilega stefnu á Montreal flugvöll fimm sinnum í viku yfir sumarið. Til Montreal flaug WOW air hins vegar allt árið um kring.

Fyrsta ferð Air Canada hingað frá Montreal í sumar er á dagskrá þann 1. júlí en Íslandsflugið frá Toronto hefst 5. júní. Icelandair flýgur einnig til þeirrar síðarnefndu.