Ein um sólarlandaferðir til Krítar

Heimsferðir eru eina ferðaskrifstofan sem býður upp á beint leiguflug til grísku eyjunnar í sumar.

Frá Chania á Krít. Mynd: Matthieu Oger / Unsplas

Þegar horft er til sölu á sólarlandaferðum þá eru Heimsferðir, Úrval-Útsýn og Vita langstærstu ferðaskrifstofur landsins. Hjá þeim tveimur síðarnefndu takmarkast framboð sumarsins við ferðir til Spánar á meðan Heimsferðir bjóða einnig upp á reglulegar brottfarir til Ítalíu og Krítar.

Gríska eyjan hefur reyndar verið hluti af sumarpróprammi hjá Vita síðustu ár en ekki að þessu sinni. Engin svör hafa fengist hjá framkvæmdastjóra Vita á því hvort þessar breytingar skrifist á minni áhuga á ferðum til Krítar eða að ekki hafi náðst samkomulag við Heimsferðir um sölu flugsætum til eyjunnar. Flugið til Krítar er nefnilega á vegum Heimsferða en líkt og Túristi hefur áður fjallað um þá ríkir nú óvenjulegt ástand á ferðaskrifstofumarkaðnum.

Ástæðan er sú að Arion banki tók Heimsferðir yfir síðastliðið sumar og reynir nú að finna fyrirtækinu nýjan eiganda. Söluferlið hefur tekið um hálft ár og teljast verður líklegt að bæði stjórnendur Vita og Úrval-Útsýn hafi skoðað kaup á keppinautnum. Á sama tíma hefur forsvarsfólk ferðaskrifstofanna tveggja ekki keypt sæti í leiguflug Heimsferða í sumar eins og Krít er dæmi um.

Í staðinn verður farþegum Vita og Úrval-Útsýn flogið suður á bóginn í þotum Icelandair en Vita er einmitt hluti af Icelandair samsteypunni. Heimsferðir þurfa því að standa undir öllum flugferðum til Krítar og fleiri staða án aðstoðar frá keppinautunum. Á dagskrá Heimsferða eru þrettán brottfarir til Krítar frá sumarbyrjun og fram í september.