Engin loðnu­leit í háloft­unum

Ferðafólki fækkaði umtalsvert hér á landi í fyrra og útlitið í ár er tvísýnt. Ekki verður þó sérstaklega vart við áhyggjur meðal ráðamanna og búið að skera niður fjármagn til talningar á túristum.

Það er ekki í hendi að erlendum ferðamönnum fjölgi þegar líður á árið. Sætiframboð í Íslandsflugi dregst saman í vor og sumar. Mynd: Alex Lopez

Nú í ársbyrjun hefur Hafrann­sókn­ar­stofnun staðið fyrir leit eftir loðnu á miðunum fyrir norðan og austan landið. Aldrei munu eins mörg skip hafa tekið þátt í svona aðgerð og fylgst er með gangi mála á ríkis­stjórn­ar­fundum enda mikil afla­verð­mæti í húfi.

Á sama tíma heldur ferða­fólki hér á landi áfram að fækka sem hefur líka veru­lega áhrif á þjóða­bú­skapinn. Samdrátt­urinn í janúar nam tuttugu þúsund ferða­mönnum samkvæmt mánað­ar­legu mati Ferða­mála­stofu. Stofn­unin fær nefni­lega ekki lengur fjár­magn til að telja alla ferða­menn á Kefla­vík­ur­flug­velli.

Þar með sparar ríkið sér, í gegnum hið opin­bera Isavia, um fimmtíu millj­ónir króna á ári. Til saman­burðar borgaði Hafró þrjátíu millj­ónir króna í leigu á skipum frá útgerð­ar­fyr­ir­tækjum vegna loðnu­leit­ar­innar í síðasta mánuði.

Loðnu­leit og talning á ferða­fólki er vissu­lega ekki alveg sami hlut­urinn en báðar aðgerðir skila okkur betri skiln­ingi á núver­andi stöðu í lykil­at­vinnu­greinum. Það að fjár­magn til taln­ingar á túristum sé skorið niður á óvissu­tímum í ferða­þjón­ust­unni er því óheppi­legt. Svo ekki sé minnst á þá sérís­lensku hefð að leyna öllum upplýs­ingum um farþega­flug til og frá landinu aftur í tímann.

Og ennþá hafa ráða­menn ekki svarað kalli ferða­þjón­ust­unnar um að koma landinu á fram­færi á erlendum vett­vangi. Þar með dregur Icelandair eigin­lega eitt vagninn í land­kynn­ing­unni enda heyrist ekki lengur rödd WOW air og Íslands­stofa hefur ekki lengur úr miklu að moða.

Þetta áhuga­leysi ráða­manna á taln­ingu ferða­fólks og land­kynn­ingum skrifast kannski á að grein­ing­ar­að­ilar sjá flestir fyrir sér hóflegan vöxt í fjölda ferða­manna í ár. Forstjóri Isavia er á sömu línu og gaf út um áramótin að erlendum ferða­mönnum myndi ekki fækka í ár miðað við mat fyrir­tæk­isins.

Þessar spár gera allar ráð fyrir að ferða­fólki fækki fyrstu þrjá mánuði ársins enda stöðv­aðist rekstur WOW air ekki fyrr en í lok mars í fyrra. Ef samdrátt­urinn í febrúar og mars verður álíka og í janúar þá þýðir það að erlendum ferða­mönnum fækki um sextíu þúsund á fyrsta þriðj­ungi ársins. Sú tala gæti lækkað um nokkur þúsund ef kínverskum ferða­mönnum hefur fækkað vegna ferða­bannsins sem sett var á til að hefta útbreiðslu kóróna­veirunnar.

Síðan ætti leiðin að liggja upp á við til að jafna út niður­sveifluna fyrstu þrjá mánuði ársins ef þessar jákvæðu spár eiga að ganga eftir. Það lítur aftur á móti út fyrir að sætaframboð í flugi til landsins dragist saman um þrjá af hundraði frá byrjun apríl og til enda október samkvæmt útreikn­ingum Túrista. Það þarf ekki að þýða að ferða­fólki fækki um sama hlut­fall en ef það gerist þá mun heild­ar­fjöldi ferða­manna í ár fara undir 1,9 milljón. Þeir voru aftur á móti rétt tæplega 2 millj­ónir í fyrra og um 2,3 millj­ónir árið á undan.

Ef þoturnar sem hingað fljúga verða aftur á móti þétt­setnari en í fyrra og með fleiri erlenda ferða­menn þá gæti þeim fjölgað þegar líður á árið. Það er þó ekkert í hendi og til að mynda kom það fram í máli forstjóra Icelandair Group nýverið að erfiðara væri að lesa bókun­ar­stöðuna en oft áður.

Það atriði eykur þá ennþá meira á óvissuna enda flytur Icelandair um annan hvern ferða­manna til landsins yfir sumar­mán­uðina. Í ofan á lag þá er útbreiðsla kóróna­veirunnar farin að hafa bein áhrif á flug til og frá Kefla­vík­ur­flug­velli í ár.

Það er því kannski full ástæða fyrir stjórn­völd að kort­leggja leit eftir þeim ferða­mönnum sem hingað eiga að koma næstu mánuði og misseri. Og jafnvel að vera með í ráðum varð­andi aðgerðir til að fá hingað reglu­legri ferðir frá erlendum flug­fé­lögum. Stjórn­endur nokk­urra þeirra hafa nefni­lega skorið niður Íslands­flug sitt að undan­förnu.