Ennþá meiri samdráttur á flug­leiðum WOW air

Nokkurra daga gömul samantekt Túrista flugframboði næsta sumars reyndist ekki rétt. Útlitið er ennþá verra en þar kom fram.

sanfrancisco losangeles flug
San Franciso og Los Angeles eru tvær af þeim borgum sem dottnar eru út af leiðakerfi Keflavíkurflugvallar frá sumarvertíðinni 2018. Mynd: Unsplash

WOW air hélt úti þrjátíu og fjórum flug­leiðum sumarið 2018 en þetta var jafn­framt síðasta sumar­vertíð félagsins, alla vega undir stjórn Skúla Mogensen. Komandi sumaráætlun Kefla­vík­ur­flug­vallar gerir ekki ráð fyrir neinum ferðum á tólf af þessum þrjátíu og fjórum flug­leiðum líkt og Túristi greindi frá fyrir helgi. Sá samdráttur skrifast ekki bara á brott­hvarf WOW heldur líka þá stað­reynd að Icelandair hefur dregið úr fjölda áfanga­staða, m.a. vegna kyrr­setn­ingar MAX þotanna.

Í fyrr­nefndri grein­ingu Túrista var því einnig haldið fram að í sumar yrðu brott­far­irnar tíðari til fimm af þeim borgum sem WOW flaug til. Það er hins vegar ekki rétt því ferð­unum fjölgar aðeins til Dusseldorf og Stokk­hólms. Þetta er niður­staða endurút­reikn­inga Túrista á nýrri sumaráætlun sem finna má á heima­síðu Isavia. Það kom nefni­lega í ljós að inn á áætl­un­inni er ennþá fjöldinn allur af flug­ferðum sem ljóst er að aldrei verða farnar miðað við útgefnar flugáætlanir flug­fé­lag­anna. Næstum öll skekkja liggur í fjölda úthlut­aðra lend­ing­ar­tíma til Icelandair og hefur Túristi óskað eftir skýr­ingum á því.

Þar af leiðir mun ferð­unum í sumar í raun fækka á nítján af flug­leið­unum sem WOW air var með. Það er viðbót um fjórar frá fyrri grein­ingu Túrista. Undir­rit­aður biður lesendur afsök­unar á þessum villum. Á sama tíma er þeim tilmælum beint til þeirra sem eru að rýna í flug­framboð næsta sumars að hafa í huga að sumaráætlun Kefla­vík­ur­flug­vallar verður aðeins smærri í sniðum en halda mætti. Í heildina fækkar þannig ferð­unum um rúmlega 40 af hundraði til þessara þrjátíu og fjög­urra áfanga­staða sem WOW air sinnti þarsíð­asta sumar.

Þeir sem styrkja útgáfu Túrista með regulegum hætti fá á morgun nánari saman­tekt á þessum breyt­ingum líkt og lofað var.