Erlendur tekur við forstjórastólnum á Grænhöfðaeyjum

Flugfélagið Capo Verde Airlines er að meirihluta í eigu íslenskra fjárfesta og dótturfélags Icelandair Group. Jens Bjarnason sem stýrt hefur félaginu síðustu misseri hefur látið af störfum.

Myndir: Capo Verde Airlines

Það er nærri ár liðið frá því að íslenskir fjárfestar undir forystu Loftleiða, dótturfélags Icelandair Group, tóku við stjórnartaumunum í flugfélaginu Capo Verde Airlines á Grænhöfðaeyjum. Þá var Jens Bjarnason, fyrrum framkvæmdastjóri hjá Icelandair, ráðinn forstjóri félagsins. Hann hefur nú látið af störfum og Erlendur Svavarsson, sem á að baki langan feril hjá Loftleiðum, er tekinn við líkt og greint er frá á Aviation Pros.

Það kom fram í uppgjöri Icelandair Group í lok síðustu helgi að nú unnið að langtímafjármögnun Capo Verde Airlines en afkoma félagsins á fjórða ársfjórðungi síðasta árs var undir væntingum. Icelandair Group færði niður eignarhlut sinn að fullu í flugfélaginu á síðasta ári en Loftleiðir eiga 36 prósent hlut. Íslenskir fjárfestar, þar á meðal Björgólfur Jóhannsson, fyrrverandi forstjóri Icelandair Group og starfandi forstjóri Samherja, eiga fimmtán prósent hlut á móti Loftleiðum.

Umsvif Capo Verde Airlines hafa aukist umtalsvert síðustu misseri. Þannig bætti félagið við áfangastöðum í Afríku og Norður- og Suður-Ameríku í byrjun vetrar líkt og Túristi fjallaði um í fyrra.