Færri farþegar og hærri fargjöld

Fjórðungi færri nýttu sér áætlunarflug norska lággjaldaflugfélagsins Norwegian í janúar. Vélarnar voru þó þéttsetnari og farmiðaverðið fór upp á við.

Mynd: Norwegian

Það hefur verið yfirlýst markmið stjórnenda Norwegian að fækka ferðum og áfangastöðum í von um að bæta afkomuna. Síðustu mánuði hefur sætaframboðið hjá Norwegian því dregist verulega saman og í janúar nam samdrátturinn 29 prósentum. Aftur á móti fækkaði farþegum minna eða um fjórðung. Þar með batnaði sætanýtingin töluvert og fór upp í 81 prósent.

Meðalfargjaldið hækkaði á sama tíma verulega eða um fimmtán prósent samkvæmt farþegatölum Norwegian sem birtar voru í morgun. Í kjölfarið hækkaði gengi Norwegian í norsku kauphöllinni um fjögur prósent í fyrstu viðskiptum dagsins.

Norwegian er í dag það flugfélag sem flytur flesta farþega milli Íslands og Spánar en héðan fljúga þotur félagsins til Tenerife, Las Palmas, Alicante og Barcelona. Auk þess hefur félagið verið áætlunarferðir héðan til Óslóar frá árinu 2011.

Uppfært: Í upprunalegu útgáfu fréttarinnar var sagt að Icelandair myndi birta sínar tölur fyrir helgi. Þær komu svo korteri síðar og var fréttinni því breytt.