Flug frá Kaupmannahöfn úr skorðum vegna skyndiverkfalls

Langar raðir hafa myndast við vopnaleitina í flugstöðinni við Kastrup.

Starfsmenn í vopnaleit Kaupmannahafnarflugvallar lögðu niður vinnu í morgun. MYND: CPH

Á þessari stundu ríkir óvissuástand í flugstöðinni við Kastrup eftir að starfsfólk í vopnaleit lagði niður störf óvænt í morgun. Ekki hafði verið boðað til verkfallsins og í dönsku pressunni nú í morgunsárið er haft eftir upplýsingafulltrúa flugvallarins að um sé að ræða ólöglega vinnustöðvun. Ekki segir hver ástæðan er fyrir óánægju starfsfólksins.

Núna er aðeins eitt hlið opið í öryggisleitinni og biðtíminn mun vera um hálftími. Af þeim sökum er búið að seinka brottförum frá Kaupmannahöfn um klukkutíma.

Aðgerðirnar hófust klukkan hálf átta að dönskum tíma í morgun og höfðu því ekki áhrif á flug SAS til Íslands hálftíma síðar. Klukkan eitt eftir hádegi á þota Icelandair að fljúga frá Kaupmannahöfn til Íslands og er hún ennþá á áætlun en henni gæti þó seinkað miðað við stöðuna núna. Í kvöld er svo á dagskrá seinni ferð Icelandair frá Kaupmannahöfn í dag.

Uppfært: 11:23: starfsfólk í öryggisleit Kaupmannahafnarflugvallar hefur snúið aftur til vinnu. Hádegisbrottför Icelandair þaðan hefur verið einkað um 25 mínútur.