Flugferðunum til London fækkaði um 101

Höfuðborg Bretlands er áfram sú borg sem oftast er flogið til. Ferðunum þangað hefur þó fækkað hratt.

Frá London Mynd: Mike Stezycki

Síðasta vetur stóð farþegum á Keflavíkurflugvelli til boða áætlunarferðir til fimm flugvalla í kringum London. Nú er hins vegar ekki lengur flogið héðan til Stansted eða London City flugvallar og ferðunum til Gatwick og Heathrow hefur fækkað. Aftur á móti er nú flogið oftar til Luton sem er í nágrenni við London samkvæmt talningum Túrista.

Af þessum sökum þá fækkaði áætlunarferðunum héðan til London í janúar um 101 sem nemur 30 prósent samdrætti. Þrátt fyrir það er breska höfuðborgin áfram sú borg sem oftast er flogið til frá Keflavíkurflugvelli en samtals voru ferðirnar þangað 212 talsins í janúar. Til viðbótar bætast svo níu leiguflug á vegum Thomson ferðaskrifstofunnar.

Kaupmannahöfn er svo í öðru sæti með 115 ferðir og eru þessar tvær borgir í sérflokki á Keflavíkurflugvelli hvað fjölda ferða varðar. En eins og Túristi greindi frá nýverið þá hefur þeim fjölgað þónokkuð sem fljúga með Icelandair til og frá Kaupmannahöfn. Aftur á  móti fækkaði farþegu á flugleiðinni milli Íslands og dönsku höfuðborgarinnar í fyrra.