Fyrsta vetrarferðin frá Amsterdam til Akureyrar

Hollenska ferðaskrifstofan Voigt Travel stendur nú fyrir Íslandsferðum þar sem farþegum er flogið beint frá hollensku höfuðborginni til Akureyrar.

Frá komu farþega Voigt Travel til Akureyrar í gær, laugardag. Mynd: Markaðsstofa Norðurlands

Flugvél hollenska flugfélagsins Transavia lenti á Akureyrarflugvelli í gærmorgun með fyrstu farþegana sem koma til Norðurlands í vetur á vegum hollensku ferðaskrifstofunnar Voigt Travel. Þetta er í fyrsta sinn sem Voigt Travel býður upp á beint flug frá Hollandi til Norðurlands að vetrarlagi en ferðaskrifstofan bauð upp á sumarferðir í fyrra.

Þá var flogið frá Rotterdam til Akureyrar en í vetrarferðunum er flogið frá Amsterdam. Alls verða farnar átta ferðir til Norðurlands, tvisvar í viku fram til 9. mars. Í sumar verður þráðurinn svo tekinn upp að ný en þá með ferðum milli Rotterdam og Akureyri einu sinni í viku.

Í tilkynningu frá Markaðsstofu Norðurlands segir að nýverið hafi ILS aðflugsbúnaður verið tekinn í notkun á Akureyrarflugvelli. Transavia er því fyrsta flugfélagið sem nýtir þennan búnað til aðflugs í reglubundnu millilandaflugi. „Ljóst er að slíkur búnaður skiptir miklu máli fyrir flugfélagið eins og öll önnur flugfélög og auðveldar aðflugið til muna frá því sem áður var.“

Ferðaskrifstofa Akureyrar hefur einnig boðið upp á ferðir til Amsterdam í samstarfi við Voigt Travel og samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningu þá hefur sala á flugmiðum þaðan til hollensku höfuðborgarinnar gengið vel. Uppselt er í nokkrar flugferðir og fá sæti laus í aðrar.