Gera tillögu um að þrír af fimm stjórnarmönnum Icelandair haldi áfram

Aðalfundur Icelandair Group fer fram í næsta mánuði. Nú hefur sérstök tilnefningarnefnd lagt til fimm nöfn í stjórnina.

Nöfn Ómars Benediktssonar og Heiðrúnar Jónsdóttur er ekki að finna meðal þeirra fimm sem tilnefninganefnd Icelandair Group gerir tillögu um að skipi nýja stjórn samsteypunnar. Í stað þeirra er lagt til að John F. Thomas og Nina Jonsson taki þar sæti. Áfram er gert ráð fyrir Guðmundi Hafsteinssyni, Svöfu Grönfeldt og Úlfari Steindórssyni sem verið hefur stjórnarformaður síðustu ár.

Nina Jonsson hefur áratuga reynslu af fluggeiranum og sinnt stjórnunarstöðum hjá félögum eins og Air France-KLM, United, US Airways. Hún er íslensk en verið búsett erlendis bróðurpart ævinnar og starfar í dag  hjá ráðgjafafyrirtæinu Plane View Partners. Það fyrirtæki kom að samningaviðræðum Indigo Partners og WOW air samkvæmt því sem Túristi kemst næst.

Umræddur John F. Thomas stýrði innanlandsdeild Virgin Australia til skamms tíma og er nú ráðgjafi í fluggeiranum.