Gjörbreytt framkvæmdastjórn í kjölfar forstjóraskipta

Eftir að Sveinbjörn Indriðason tók við sem forstjóri Isavia þá hafa fjórir nýir framkvæmdastjórar hafi störf hjá fyrirtækinu.

Ragnheiður Hauksdóttir og Anna Björk Bjarnadóttir eru nýir framkvæmdastjórar hjá Isavia. Myndir: Isavia

Í svokölluðu framkvæmdaráði Isavia sitja sjö framkvæmdastjórar auk forstjórans Sveinbjörns Indriðasonar. Hann var sjálfur framkvæmdastjóri fjármálasviðs fyrirtækisins áður en hann fékk stöðuhækkun síðastliðið sumar í kjölfar brotthvarfs Björns Óla Haukssonar.

Frá því að Sveinbjörn settist í stól forstjóra þá hafa mannabreytingar í yfirstjórninni verði þónokkrar og til marks um það þá sitja þar í dag aðeins þrír framkvæmdastjórar sem voru þar líka í forstjóratíð Björns Óla. Fjórir nýir hafa komið í þeirra stað því í dag tilkynnti Isavia um ráðningu Önnu Bjarkar Bjarnadóttur sem framkvæmdastjóra þjónustu- og rekstrarsviðs og Ragnheiðar Hauksdóttu sem tekur við stöðu framkvæmdastjóra stafrænnar þróunar og upplýsingatækni.

Áður hafði Jóhann Gunnar Jóhannsson tekið við gamla starfinu hans Sveinbjörns og Arnar Már Másson sem framkvæmdastjóri mannauðs og stefnumótunar.

Í tilkynningu frá Isavia segir að Anna Björk muni fara fyrir daglegum rekstri Keflavíkurflugvallar en hún var áður framkvæmdastjóri ráðgjafar og sérlausna hjá Advania. Einnig starfaði hún í átta ár hjá Símanum og sat þar í framkvæmdastjórn í fimm ár og gegndi hlutverki framkvæmdastjóra hjá Expectus.

Ragnheiður tekur við nýju stoðsviði Isavia sem er stofnað til að annast stafræna þróun og rekstur upplýsingatækni hjá félaginu. Það fer með ábyrgð á rekstri upplýsingatækni hjá Isavia, annast stafræna þróun og nýsköpun og leiðir stefnumörkun félagsins í stafrænni umbreytingu samkvæmt tilkynningu. Ragnheiður hefur yfir tíu ára starfsreynslu sem stjórnandi hjá Vodafone, síðast sem framkvæmdastjóri einstaklingssviðs.