Hinar nýju lang­drægu Airbus þotur henta vel í Íslands­flugið

Sætanýtingin í flugi United flugfélagsins til Keflavíkurflugvelli hefur verið há síðustu tvö sumur þrátt fyrir mikið framboð. Sérstaklega fyrra sumarið þegar WOW var ennþá í loftinu. Túristi ræddi við framkvæmdastjóra United um útgerðina hér á landi.

Bob Schumacher, framkvæmdastjóri United Airlines á Bretlandi. Mynd: United Airlines

Þriðja sumar­vertíð United flug­fé­lagsins á Kefla­vík­ur­flug­velli hefst í byrjun júní og munu þotur félagsins fljúga daglega héðan til Newark flug­vallar við New York fram í sept­ember. Í áætl­un­ar­ferð­irnar til Íslands hefur United notað flug­vélar af gerð­inni Boeing 757–200 en þær eru fram­leiddar um síðustu aldarmót og því farið að styttast í að þeim verði lagt. Flug­vélar af sömu gerð eru einmitt uppistaðan í flug­flota Icelandair.

Aðspurður um hvort Boeing þoturnar séu ekki komnar á tíma og hvaða flug­vélar verði þá nýttar í Íslands­flugið þá svarar Bob Schumacher, fram­kvæmda­stjóri hjá United, því til að flug­fé­lagið hafi þegar pantað fimmtíu Airbus A321XLR þotur og þær gætu nýst vel í flug til staða eins og Íslands. Þær eru þó fyrst vænt­an­legar árið 2024 og ítrekar Schumacher því að Boeing þoturnar eigi ennþá tölu­vert eftir enda hafi þær verið með þeim síðustu sem fram­leiddar voru á sínum tíma. Þær séu þar með ekki eins gamlar og margar aðrar sem ennþá eru í notkun annars staðar í heim­inum.

Fyrsta sumarið sem United flaug til Íslands þá atti það kappi við bæði Icelandair og WOW air í flugi frá Newark til Íslands. Breytti það miklu fyrir sæta­nýt­inguna og fargjöldin í fyrra að WOW air var horfið af mark­aðnum? „Það var greini­legur munur á fram­boðinu í fyrra og sæta­nýt­ingin aðeins hærri þó hún hafi reyndar verið há fyrra sumarið líka. Meðal­far­gjaldið hækkaði líka enda var fram­boðið of mikið árið áður,” segir Schumacher. Það hafði líka jákvæð áhrif í fyrra, að mati fram­kvæmda­stjórans, að þá var United komið með reynslu af flugi til Íslands.

Þrátt fyrir jákvæða þróun þá er ekki á teikni­borðinu hjá banda­ríska flug­fé­laginu að halda úti flugi hingað allt árið um kring. „Við verðum að læra að ganga áður en við tökum á sprett,” svarar Schumacher. Hann segir að félagið verði að afla sér meiri reynslu af Íslands­flugi áður en starf­semin yrði aukin. Það eigi líka við um flug frá fleiri borgum en starfs­stöðvar United eru í dag á sjö banda­rískum flug­völlum.

„Styrk­leiki United er meðal annars fólgin í leiða­kerfinu og miklum umsvifum á okkar helstu starfs­stöðvum. Þar með geta farþegar flogið með okkur frá fjölda­mörgum borgum til Newark og þaðan til Íslands. Rétt um helm­ingur þeirra sem flýgur með okkur til Íslands byrjar ferða­lagið í Newark, hinir koma alls staðar að frá Banda­ríkj­unum, Suður-Ameríku og jafnvel frá Auckland á Nýja-Sjálandi,” segir Schumacher að lokum.

Fyrsta ferð sumarsins á vegum United frá Kefla­vík­ur­flug­velli verður þann 5. júní og sú síðasta 30. sept­ember. Brott­farir eru héðan rétt fyrir hádegi og lent um klukkan tvö eftir hádegi að stað­ar­tíma vest­an­hafs.
Sem fyrr segir notast United við Boeing 757–200 þotur og í þeim eru sextán sæti á viðskiptafar­rými og 153 á hefð­bundnu, þar af 45 á svokölluð Economy Plus sæti.