Hinar nýju langdrægu Airbus þotur henta vel í Íslandsflugið

Sætanýtingin í flugi United flugfélagsins til Keflavíkurflugvelli hefur verið há síðustu tvö sumur þrátt fyrir mikið framboð. Sérstaklega fyrra sumarið þegar WOW var ennþá í loftinu. Túristi ræddi við framkvæmdastjóra United um útgerðina hér á landi.

Bob Schumacher, framkvæmdastjóri United Airlines á Bretlandi. Mynd: United Airlines

Þriðja sumarvertíð United flugfélagsins á Keflavíkurflugvelli hefst í byrjun júní og munu þotur félagsins fljúga daglega héðan til Newark flugvallar við New York fram í september. Í áætlunarferðirnar til Íslands hefur United notað flugvélar af gerðinni Boeing 757-200 en þær eru framleiddar um síðustu aldarmót og því farið að styttast í að þeim verði lagt. Flugvélar af sömu gerð eru einmitt uppistaðan í flugflota Icelandair.

Aðspurður um hvort Boeing þoturnar séu ekki komnar á tíma og hvaða flugvélar verði þá nýttar í Íslandsflugið þá svarar Bob Schumacher, framkvæmdastjóri hjá United, því til að flugfélagið hafi þegar pantað fimmtíu Airbus A321XLR þotur og þær gætu nýst vel í flug til staða eins og Íslands. Þær eru þó fyrst væntanlegar árið 2024 og ítrekar Schumacher því að Boeing þoturnar eigi ennþá töluvert eftir enda hafi þær verið með þeim síðustu sem framleiddar voru á sínum tíma. Þær séu þar með ekki eins gamlar og margar aðrar sem ennþá eru í notkun annars staðar í heiminum.

Fyrsta sumarið sem United flaug til Íslands þá atti það kappi við bæði Icelandair og WOW air í flugi frá Newark til Íslands. Breytti það miklu fyrir sætanýtinguna og fargjöldin í fyrra að WOW air var horfið af markaðnum? „Það var greinilegur munur á framboðinu í fyrra og sætanýtingin aðeins hærri þó hún hafi reyndar verið há fyrra sumarið líka. Meðalfargjaldið hækkaði líka enda var framboðið of mikið árið áður,” segir Schumacher. Það hafði líka jákvæð áhrif í fyrra, að mati framkvæmdastjórans, að þá var United komið með reynslu af flugi til Íslands.

Þrátt fyrir jákvæða þróun þá er ekki á teikniborðinu hjá bandaríska flugfélaginu að halda úti flugi hingað allt árið um kring. „Við verðum að læra að ganga áður en við tökum á sprett,” svarar Schumacher. Hann segir að félagið verði að afla sér meiri reynslu af Íslandsflugi áður en starfsemin yrði aukin. Það eigi líka við um flug frá fleiri borgum en starfsstöðvar United eru í dag á sjö bandarískum flugvöllum.

„Styrkleiki United er meðal annars fólgin í leiðakerfinu og miklum umsvifum á okkar helstu starfsstöðvum. Þar með geta farþegar flogið með okkur frá fjöldamörgum borgum til Newark og þaðan til Íslands. Rétt um helmingur þeirra sem flýgur með okkur til Íslands byrjar ferðalagið í Newark, hinir koma alls staðar að frá Bandaríkjunum, Suður-Ameríku og jafnvel frá Auckland á Nýja-Sjálandi,“ segir Schumacher að lokum.

Fyrsta ferð sumarsins á vegum United frá Keflavíkurflugvelli verður þann 5. júní og sú síðasta 30. september. Brottfarir eru héðan rétt fyrir hádegi og lent um klukkan tvö eftir hádegi að staðartíma vestanhafs.
Sem fyrr segir notast United við Boeing 757-200 þotur og í þeim eru sextán sæti á viðskiptafarrými og 153 á hefðbundnu, þar af 45 á svokölluð Economy Plus sæti.