Indigo Partners selja stærstan hlut sinn í Wizz Air

Bandaríska fjárfestingafélagið sem skoðaði lengi að kaupa stóran hlut af Skúla Mogensen í WOW air seldi í gær stóran hlut í Wizz Air. Helmingur söluverðsins dugar til að kaupa upp Icelandair Group.

wizz budapest
Mynd: Wizz Air

Reglur Evrópusambandins kveða á um að fjárfestar utan Evrópu mega í mesta lagi eiga 49 prósent hlut í evrópskum flugfélögum. Og þó Indigo Partners, með Bill Franke í fararbroddi, hafi aðeins átt um fimmtung af útgefnum bréfum í ungverska lággjaldaflugfélaginu Wizz Air þá hefur legið fyrir að hluturinn var í raun mun meiri.

Með eign sinni á breytanlegum skulda- og hlutabréfum í Wizz Air þá var talið að Franke og félagar hjá Indigo Partners ættu í raun ríflega helming í flugfélaginu sem er töluvert yfir fyrrnefndu hámarki ESB.

Forstjóri Wizz Air gaf það í skyn nýverið að þetta þyrfti að laga og í gær var komið að því Indigo Partners seldi bróðurpart bréfa sinna í flugfélaginu og heldur aðeins eftir 3,5 prósenta hlut. Kaupendur voru alls kyns fagfjárfestar og söluverðið nam um 81 milljarði króna samkvæmt Reuters. Til samanburðar er markaðsvirði Icelandair Group í dag rétt um helmingur af þeirri upphæð.

Áhrif Bill Franke og félaga verða þó áfram mikil innan Wizz Air í gegnum hin breytanlegu skulda- og hlutabréf. Ekki liggur þó fyrir hvort breytt staða hafa áhrif á stöðu Franke sem stjórnarformanns flugfélagsins. En til marks um hversu mikil völd  hans hafa verið þá er það Indigo Partners sjálft sem gert hefur risasamninga við Airbus um kaup á flugvélum. Þotunum sem svo dreift á þau flugfélög sem Indigo Partners eiga hlut í.

Þess má geta að reglur Evrópusambandsins, um að flugfélag innan álfunnar séu að meirihluta í eigu evrópskra aðila, gilda líka hér á landi. Ef af fjárfestingu Indigo Partners í WOW air hefði orðið þá hefði hún þurft að vera í samræmi við þessar reglur. Sama ætti þá að gilda um hið endurreista WOW air ef félagið mun þá sækja um íslenskt eða evrópskt flugrekstrarleyfi til að geta flogið til Evrópu frá Keflavíkurflugvelli.

VILTU STYÐJA VIÐ ÚTGÁFU TÚRISTA?