Íslendingar drógu verulega úr ferðum sínum til Bandaríkjanna

Nærri fimmtungi færri íslenskir ferðamenn lögðu leið sína vestur um haf í fyrra. Árið áður hafði dýrkeypt samkeppni Icelandair og WOW air ýtt undir ferðagleðina.

Sumarið 2018 flugu bæði WOW og Icelandair til Cleveland. Mynd: Ferðamálaráð Cleveland

Það var í hittifyrra sem Icelandair og WOW air blésu til stórsóknar í Bandaríkjunum. Fjólubláar flugvélar WOW héldu þá í jómfrúarferðir sínar til St. Louis, Cincinnati og Detroit og einnig bættust borgirnar Dallas og Cleveland við leiðakerfi beggja flugfélaga. Icelandair spreytti sig líka á áætlunarferðum Kansas borgar en stuttu áður hafði félagið líka hafið flug til Tampa á Flórídaskagunum.

Flug til fimm af þessum sjö borgum var lagt niður stuttu síðar og ekki verður framhald á flugi til Kansas og Dallas í ár. Þessu til viðbótar skoruðu stjórnendur Icelandair helsta keppinaut sinn á hólm í San Francisco og Baltimore en gáfust upp á þeim flugleiðum líka þrátt fyrir að WOW air hyrfi að markaðnum.

Og segja má að það hafi fljótlega legið fyrir að þessi gríðarlega áhersla á Bandaríkin hafi reynst eigendum Icelandair og WOW air mjög dýrkeypt. Í lok sumarvertíð 2018 urðu til að mynda forstjóraskipti hjá Icelandair og þá hófst umtalað skuldabréfaútboð WOW air.

Bandarískir og íslenskir ferðamenn nutu hins vegar góðs af þessari útrás íslensku flugfélaganna. Vægi bandarískra túrista hér á landi jókst enn frekar og Íslendingar streymdu vestur um haf. Rúmlega 73 þúsund íslensk vegabréf voru þannig skráð á bandarískum flugvöllum árið 2018. Í fyrra fór fjöldinn aftur á móti niður í 60 þúsund og nemur samdrátturinn um 18 prósentum samkvæmt tölum frá bandarískum ferðamálayfirvöldum.

Þrátt fyrir þetta þá eru Íslendingar áfram sú norræna þjóð sem mest sækir í ferðalög til Bandaríkjanna. Það lætur nefnilega nærri að um fimmtungur þjóðarinnar ferðist vestur um haf ár hvert.

Eins og sjá má töflunni hér fyrir neðan fækkaði líka dönskum, sænskum og norskum ferðamönnum í Bandaríkjunum í fyrra og þar hefur samdrátturinn í Bandaríkjaflugi frá Íslandi kannski sín áhrif. Icelandair hefur nefnilega verið stórtækt í að fljúga fólki milli Skandinavíu og Norður-Ameríku með millilendingu á Íslandi og WOW air var það að töluverðu leyti líka með tíðum ferðum til Kaupmannahafnar.