Íslenskar ferðaskrifstofur aflýsa ferðum til Kína

Ekkert verður af Kínareisum þriggja íslenskra hópa nú um páskana.

Kínamúrinn. MYND: HANSON LU / UNSPLASH

Verulega hefur dregið úr flugsamgöngum til og frá Kína síðustu vikur vegna kórónaveirunnar sem rakin er til borgarinnar Wuhan. Til marks um það þá völdu stjórnendur kínverska Juneyao Airlines að hætta við fyrstu ferðir flugfélagsins til Íslands nú í lok vetrar. Og nú hefur forsvarsfólk Heimsferða og Vita fellt niður ferðir sínar til Kína í apríl næstkomandi.

Hjá Heimsferðum var um að ræða tvær reisur og voru fimmtíu manns búnir að taka frá sæti í þeim. Uppselt var í þá fyrri og var ætlunin að leggja í hann þann 3 apríl og koma heim tuttugu dögum síðar. Seinni ferðin var á dagskrá í framhaldinu og ennþá voru laus pláss en fargjaldið var tæp hálf milljón króna.

Margrét Helgadóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Heimsferða, segir að farþegum hafi verið gefinn kostur á að fara í aðrar ferðir á vegum ferðaskrifstofunnar eða fá fulla endurgreiðslu. Hún bætir því við að stefnt er að samskonar reisum til Kína á næsta ári.

Hjá Vita er einnig ætlunin að setja Kínaferðir á dagskrá á ný þegar frá líður segir Þráinn Vigfússon, framkvæmdastjóri. Hann segir að allir þeir sem áttu bókað í páskaferð Vita til Kína í ár hafi fengið fulla endurgreiðslu en um var að ræða tveggja vikna ferð og var hún uppseld.