Kínverjar aflýsa fyrstu flugferðunum til Íslands

Jómfrúarferð Juneyao flugfélagsins til Keflavíkurflugvallar hefur verið frestað fram í lok apríl.

Mynd: Juneyao Airlines

Þriðjudaginn 31. mars næstkomandi var væntanleg hingað til lands Boeing Dreamliner þota Juneyao flugfélagsins. Í framhaldinu var svo ætlunin að þotur félagsins myndu fljúga hingað til lands tvisvar í viku frá Sjanghæ í Kína en þó með viðkomu í Helsinki.

Ferðabannið sem sett var á af kínverskum stjórnvöldum, til að hefta útbreiðslu Wuhan kórónaveirunnar, hefur hins vegar orðið til þess að dregið hefur verulega úr flugi frá Kína. Og í byrjun vikunnar lokaði Juneyao fyrir bókanir í fyrstu sjö ferðir sínar til Íslands líkt og Túristi greindi frá.

Núna hafa stjórnendur Juneyao tekið þetta einu skrefi lengra og  aflýst þessum fyrstu ferðum samkvæmt talsmanni félagsins. Hann segir að áformað sé að þotur Juneyao fljúgi eingöngu frá Sjanghæ til Helsinki fram til loka apríl. Þar með hefur tengiflugi til Íslands og annarra evrópskra áfangastaða verið aflýst.

Upphaflega áæltun Juneyao gerði ráð fyrir þrjátíu ferðum hingað til lands frá vori og fram á haust. Eftir niðurfellingu á fyrstu ferðunum standa þá eftir tuttugu og þrjár ferðir. Sætaframboðið hefur þá dregist saman um fjórðung eða niður í nærri 7500 sæti til Íslands.