Kínverjar og Danir bættu við langflestum hótelnóttum

Færri danskir ferðamenn en miklu fleiri Danir á íslenskum hótelum í fyrra en árið á undan.

Frá Exeter hótelinu við Tryggvagötu. Mynd: Keahótelin

Það komu um tíu þúsund fleiri kínverskir ferðamenn hingað til lands í fyrra og samtals bókuðu Kínverjar um 35 þúsund fleiri hótelnætur á íslenskum hótelum allt síðastliðið ár. Hótelnóttum Dana fjölgaði aðeins minna eða um tæplega 33 þúsund samkvæmt tölum Hagstofunnar. Það vekur athygli því samkvæmt talningu Ferðamálastofu þá komu hingað rétt um sautján hundruð færri danskir ferðamenn í fyrra.

Skýringin á þessu liggur líklegast í því að Danir sækja núna í miklu meira mæli í hótelgistingu þegar þeir ferðast um Ísland og dvelja lengur. En það telst vera ein dönsk hótelnótt þegar Dani gistir í eins manns herbergi eina nótt. Aftur á móti jafngildir það fjórum dönskum hótelnóttum þegar dönsk hjón deila tveggja manna herbergi í tvær nætur.

Nýbirtar gistináttatölur Hagstofunnar er ennþá eingöngu hægt að greina eftir þjóðernum þegar horft er til hótela. Þar með getum við ekki skoðað hveru margar dönsku næturnar voru á gistiheimilum, tjaldstæðum, íbúðum o.s.frv.

Aftur á mót sýna tölur síðustu ára að rúmlega helmingur gistinótta Dana hér á landi er á hótelum. Það hlutfall hefur þá að öllum líkum hækkað verulega í fyrra og lægri verðskrár hótela kunna þar að hafa verulega áhrif.

Sambærileg þróun hefur orðið hjá mun fleiri þjóðum í fyrra eins og sjá má á listanum hér fyrir neðan. Þar er að finna þær tíu þjóðir sem bættu við sig flestum hótelnóttum í fyrra en ferðamönnum frá nær öllum þessum löndum fækkaði þó hér á landi í fyrra.

 

EF ÞÉR FINNST GAGN Í SKRIFUM TÚRISTA ÞÁ GETURÐU STUTT VIÐ BAKIÐ Á ÚTGÁFUNNI