Leggja niður aðra flugleið til Íslands

Ungverska lággjaldaflugfélagið Wizz Air hættir nú Íslandsflugi frá tveimur borgum með stuttu millibili.

Eftir fall WOW air varð Wizz Air næst umsvifamesta flugfélagið á Keflavíkurflugvelli yfir sumarmánuðina. Yfir háveturinn stendur easyJet fyrir fleiri ferðum til hingað en það félag hefur að undanförnu dregið nokkuð úr Íslandsfluginu frá bæði Bretlandi og Sviss. Stjórnendur Wizz Air eru líka farnir að fækka ferðunum.

Um miðjan næsta mánuð leggur félagið þannig niður allt flug til Keflavíkurflugvallar frá Vilníus í Litháen líkt og Túristi greindi frá í þarsíðustu viku. Og núna er ekki er lengur hægt að bóka flug með félaginu hingað frá Riga, höfuðborg Lettlands, eftir 31. maí. Ekki hafa fengist skýringar á þessari breytingu frá Wizz Air .

Bæði Vilnius og Riga voru hluti af komandi sumaráætlun Keflavíkurflugvallar og var gert ráð fyrir tveimur ferðum í viku til hvorrar borgar. Með þessum breytingum dregst sætaframboðið, í flugi frá landinu, saman um 720 sæti í viku hverri.

Þó Wizz Air leggi niður flugið hingað frá Riga þá mun AirBaltic halda áfram á flugleiðinni. Fyrsta ferð ársins verður farin í byrjun næsta mánaðar og þá verða í boði tvær ferðir í viku. Frá lokum mars fjölgar AirBaltic svo brottförunum upp í fjórar í viku og verður þeim takti haldið fram í lok október.

Sumarprógramm Wizz Air á Keflavíkurflugvelli gerir í dag ráð fyrir reglulegum brottförum til pólsku borganna Gdansk, Kraká, Varsjár, Katowice og Wroclaw auk ferða til Búdapest, Vínar og London.