Leggja niður Íslandsflugið frá Litháen

Í lok næsta mánaðar er á dagskrá síðasta ferð Wizz Air frá Vilnius til Keflavíkurflugvallar.

Frá einni af jómfrúarferðum Wizz Air til Íslands. Mynd: Isavia

Nú í vetur hafa þotur Wizz Air flogið hingað til lands tvisvar í viku frá Vilnius í Litháen. Það var þó ekki ætlunin hjá stjórnendum félagsins að halda fluginu úti allt árið um kring en eftirspurnin var það mikil að ferðunum var haldið áfram í lok síðustu sumarvertíðar líkt og Túristi greindi frá.

Nú liggur aftur á móti fyrir að Wizz Air ætlar ekki aðeins að leggja niður vetrarflugið til Íslands frá höfuðborg Litháen heldur líka sumarferðirnar. 

„Við endurmetum stöðugt leiðakerfi okkar og gerum á því breytingar ef þörf þykir á. Við urðum því að laga starfsemi okkar í Vilnius að eftirspurninni eins og hún er í dag og aðstæðum á markaði,“ segir í svari upplýsingafulltrúa Wizz Air við fyrirspurn Túrista.

Komandi sumaráætlun Wizz Air gerir ráð fyrir flugi til Keflavíkurflugvallar frá níu evrópskum borgum. Það eru jafn margar borgir og í fyrrasumar því Kraká í Póllandi hefur bæst við á meðan Vilnius dettur út.

NÚ GETUR ÞÚ STUTT ÚTGÁFU TÚRISTA