Loka fyrir bókanir í Íslandsflug Juneyao Airlines

Það er ekki lengur hægt að panta sæti í fyrstu ferðir kínverska flugfélagsins til Íslands. Þessum ferðum hefur þó ekki verið aflýst ennþá.

Það gæti orðið lengri bið eftir þotum Juneayo hingað til lands. Mynd: Juneyao Airlines

Frá lokum mars og fram í enda október er gert ráð fyrir að breiðþotur Juneyao flugfélagsins fljúgi hingað til lands frá Sjanghæ í Kína með viðkomu í Helsinki. Samtals verða þrjátíu ferðir í borði en nú er ekki lengur hægt að bóka sæti í þær sjö fyrstu. Talsmaður félagsins staðfestir í samtali við Túrista að búið sé að loka fyrir sölu á sætum í þessar fyrstu ferðir. Hann segir það þó aðeins tímabundið og ítrekar að ferðunum hafi ekki verið aflýst.

Það er kórónavírusinn sem rakinn er til borgarinnar Wuhan sem veldur þessari óvissu en fjöldi flugfélaga hefur fellt niður ferðir til Kína tímabundið. Flugáætlanir í flugi til landsins eru því sífellt að breytast.

Ef raunin verður sú að sjö fyrstu flug Juneyao hingað til lands verða felld niður þá jafngildir það því að sætaframboðið í ferðum félagsins til Íslands dregst saman um nærri fjórðung. En líkt og Túristi benti á í síðasta mánuði, áður en kórónaveiran komst í hámæli, þá byggðu spár um aukningu kínverskra ferðamanna hér á landi á veikum forsendum, t.d. ofmati á sætaframboði Juneyao flugfélagsins.

NÚ GETUR ÞÚ STUTT VIÐ ÚTGÁFU Á ENNÞÁ ÖFLUGRI TÚRISTA