Loks verðdagatal hjá Icelandair

Nú má skoða hvernig fargjöldin hjá Icelandair eru yfir langt tímabil en þess háttar hefur lengi verið í boði hjá mörgum af keppinautum íslenska félagsins.

Skjámynd: Icelandair

Farþegar eru vafalítið oft með ákveðna ferðadaga í huga þegar halda á úti í heim. Það kemur þó líka fyrir að fólk er sveigjanlegt og láti fargjöldin ráða ferðinni. Og það er sennilega megin skýringin á því að hjá mörgum flugfélögum hefur lengi verið hægt að sjá hvað farmiðinn kostar yfir langt tímabil, t.d. einn mánuð í einu. Þannig var það til að mynda hjá WOW air.

Á heimasíðu Icelandair hefur aftur á móti ekki tíðkast að birta þess háttar yfirlit og látið duga að sýna fargjöld fyrir nokkra daga í einu. En allt er breytingum háð og núna birtast fargjöld fyrir allt að tvo mánuði í bókunarvél Icelandair eins og sjá má á myndinni hér fyrir ofan.

Farmiðaverð næstu mánaða birtast strax ef eingöngu er óskað eftir flugsæti aðra leiðina. Aftur á móti koma aðeins upp verð á heimferðum næstu þrjá vikur ef leitað er eftir flugi út og heim aftur. Hvað sem því líður er ljóst að þetta er töluverð framför fyrir þá sem vilja skoða fargjöld Icelandair eftir dagsetningum og bera saman við kepppinautanna.

Hafa ber í huga að fargjöldin sem birtast í þessu nýja yfirliti á heimasíðu Icelandair eru úr Economy Light verðflokknum. Þeim fylgir ekki innritaður farangur og farþegar fá helmingi færri vildarpunkta en þeir sem kaupa Economy Standard miða.