Löndin þar sem ferðaþjónustan vex hraðast

Ísland er ekki lengur á listanum yfir þau lönd þar sem ferðafólki fjölgar mest. Núna er landið aftur á móti nálægt topplistanum yfir þau svæði þar sem fækkunin er mest.

Frá Shwedagon pagódunni í Búrma eða Myanmar eins og landið heitir opinberlega. Mynd: Cheng Q / Unsplash

Það voru fjörutíu prósent fleiri ferðamenn sem heimsóttu Búrma heim í fyrra en árið á undan. Ekkert annað land státar af öðrum eins vexti samkvæmt nýjum tölum ferðamálaráðs Sameinuðu þjóðanna, UNWTO. Í öðru sæti er Púertó Ríkó og svo Íran eins og sjá má á listanum hér fyrir neðan.

Aftur móti var Chile það land þar sem ferðafólki fækkaði hlutfallslega mest í fyrra eða um fimmtung. Þar á eftir kom Hong Kong og Sri Lanka þar sem niðursveiflan var örlítið minni. Til samanburðar fækkaði komum ferðamanna til Íslands um fjórtán af hundraði í fyrra.

Þau lönd þar sem ferðafólki fjölgaði mest í fyrra:

  1. Búrma: 40,2%
  2. Púertó Ríkó: 31,2%
  3. Íran: 27,9%
  4. Úsbekistan: 27,3%
  5. Svartfjallaland: 21,4%