Mid-Atlantic nú annað hvert ár

Ferðaskaupstefna Icelandair verður ekki lengur árlegur viðburður.

Frá Mid-Atlantic í Laugardalshöll. Mynd: Icelandair

Í lok janúar fór ferðakaupstefnan Icelandair, Mid-Atlantic, fram í Laugardalshöll. Þetta var í 28. skipti sem kaupstefnan er haldin en þar koma saman íslensk og erlend ferðaþjónustufyrirtæki og halda hátt í fimm þúsund sölufundi. Mid-Atlantic hefur farið fram árlega en nú á að hægja á taktinum og halda kaupstefnuna annað hvert ár í staðinn.

Ástæðan er sú að VestNorden ferðastefnan er einnig haldinn á Íslandi annað hvert ár og að sögn Ásdísar Pétursdóttur, upplýsingafulltrúa Icelandair, var farið að bera á því að gestir þessara tveggja viðburða væru farnir að telja það eftir sér að heimsækja Ísland jafn oft og raun bar vitni. Þess vegna var ákveðið að halda Mid-Atlantic annað hvert ár og styrkja þannig hvorn viðburð fyrir sig.

Reyndar verður það þannig VestNordan og Mid-Atlantic munu engu að síður fara fram á Íslandi sama árið en Ásdís segir að þessi breyting komi samt betur út fyrir erlenda gesti. Mid-Atlantic fer þannig fram í ársbyrjun á meðan VestNorden er haldin að hausti. „Þannig eru níu eða fimmtán mánuðir á milli viðburða á Íslandi, annars væru það fjórir mánuðir.“